Skipuleggjendur tónlistarhátíðarinnar Iceland to Poland tilkynntu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag að hætt hafi verið við viðburð á vegum hátíðarinnar sem átti að fara fram í Gdansk í kvöld. Skipuleggjendurnir segja ástæðuna vera óviðráðanlegir skipulagserfiðleikar.

Skipuleggjendur biðja þá sem ætluðu að koma afsökunar og segja að miðar verði endurgreiddir.

Tónlistarhátíðin gengur út á að kynna íslenska tónlistarmenn í Póllandi með nokkrum viðburðum í pólskum borgum. Viðburðurinn í Gdansk átti að vera sá síðasti í tónleikaröðinni.

Í tilkynningu skipuleggjenda segir að skipulag viðburðarins hafi verið erfitt og að dagskráin hafi breyst margsinnis.

Hljómsveitin Hatari er ein þeirra sem átti að spila á viðburðinum í kvöld, en eins og hefur komið fram í fréttum stefndi Wiktoria Joanna Ginter, aðalskipuleggjandi tónlistarhátíðarinnar, Svikamyllu ehf, sem er móðurfyrirtæki Hatara, fyrir samningsbrot, þar sem sveitin hætti við að spila. Samkvæmt frétt Vísis verður málið tekið fyrir í í Héraðsdómi Reykjavíkur um miðjan september.

Skipuleggjendur segja að samskiptin við tónlistarmenn hafi ekki gengið sem skyldi en að þeir hafi lært mikilvægar lexíur sem verði nýttar við skipulag hátíðarinnar að ári.