„Ég held að það sé alveg klárt mál að það verður betra eftirlit með þessu, því við viljum alltaf gera betur,“ segir Sæunn Magnúsdóttir, formaður ÍBV, aðspurð út í óánægjuraddir með að ein af tröllskessunum á þrettándahátíð ÍBV um helgina hafi verið merkt Eddu Falak, hlaðvarpsstjórnenda Eigin kvenna.

Mannlíf vakti fyrst athygli á því að það var búið að skrifa nafn Eddu aftan á eina skessu í þrettándagleði ÍBV um helgina en eftirnafn Eddu var vitlaust skrifað.

Þá var einnig búið að klæða eina skessuna í thawb eins og þekkist í Mið-Austurlöndunum.

Sæunn segir að þetta sé löng hefð að merkja skessurnar eftir þjóðþekktum einstaklingum en hún var ósátt að Edda væri uppnefnd þar sem seinna nafn hennar var ekki rétt ritað.

„Það hefur tíðkast í gegnum tíðina að tröllin eru merkt einhverjum. Heimir Hallgrímsson hefur lengi verið ein skessa og Páley var lengi vel aftan á annarri. Að fara út í uppnefni, það er hins vegar eitthvað sem við erum ekki ánægð með. Við viljum bæta úr því,“ segir Sæunn og segir framkvæmdina óviðeigandi og að hún hafi heyrt af óánægjuröddum.

„Þjóðfélagið er að breytast, hvað má og hvað má ekki. Hingað til hefur þetta ekki farið illa í fólk að þetta sé manneskja í samfélaginu og álitið þetta grín, en það þarf líka að fara vel með grín og fara varlega. Þarna fóru tröllin fram úr sér.“

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum þekkti til málsins og segir þetta óásættanlega hegðun.

„Þetta tröll hefur í gegnum tíðina borið nafn ýmissra aðila en mér finnst þetta mjög óviðeigandi og ég hef komið þeirri skoðun til forráðamanna ÍBV. Þetta er ekki það sem þrettándinn stendur fyrir og ég er viss um að félagið tekur á þessu,“ segir Íris.