Skráðum einstaklingum sem eiga lögheimili í Árneshreppi fjölgaði um 39 prósent á tveggja vikna tímabili, frá 24. apríl til 4. maí. Í minnisblaði sem unnið hefur verið fyrir Árneshrepp kemur fram að um sé að ræða málamyndaskráningar vegna sveitarstjórnarkosninga. Stærsta kosningamálið í hreppnum er fyrirhuguð bygging Hvalárvirkjunar, en hart hefur verið deilt um áformin.

Árneshreppur hefur gert Sambandi íslenskra sveitarfélaga viðvart og Þjóðskrá Íslands mun tilkynna innanríkisráðuneytinu um málið, að því er fram kemur í minnisblaðinu sem Sókn lögmannsstofa gerði fyrir Árneshrepp. Málið sé litið alvarlegum augum, enda varði það bæði röskun á grundvallarreglum um lýðræði og geti varðað við lög.

Í lögum um kosningar til sveitarstjórna kemur meðal annars fram að það teljist til kosningaspjalla að gefa upp villandi upplýsingar um búsetu, sem leitt geti til þess að maður verði settur á kjörskrá sem ekki á rétt á að vera þar. Í minnisblaðinu er einnig bent á að samkvæmt hegningarlögum geti tveggja ára fangelsi legið við því að afla sér eða öðrum ólöglega færis á að taka þátt í atkvæðagreiðslu.

Fyrir 24. apríl voru 44 skráðir með lögheimili í Árneshreppi. Sautján skráðu lögheimili sitt í hreppnum á umræddu tveggja vikna tímabili. „Aðrir eins lögheimilisflutningar eru líklega einsdæmi, hlutfallslega,“ segir í minnisblaðinu.

Fram kemur að Þjóðskrá hafi að eigin frumkvæði ákveðið að endurupptaka afgreiðslu lögheimilisskráninga þessara einstaklinga. Réttmæti skráninganna ráðist væntanlega af því hvort föst búseta þessara einstaklinga hafi raunverulega breyst fyrir 4. maí síðastliðinn. Málið mun vera í flýtimeðferð hjá Þjóðskrá en í minnisblaðinu er stungið upp á því að hreppsnefndarfundur verði boðaður þegar stofnunin hafi fjallað um málin. „Miðað við það þarf hreppsnefnd að fella aðila út af kjörskrá til samræmis við ákvarðanir Þjóðskrár Íslands.“

Meirihluti hreppsnefndar er fylgjandi virkjunaráformum.