Erla Jóhannsdóttir, íbúi á Siglufirði, segist í samtali við Fréttablaðið aldrei hafa upplifað jarðskjálftahrinu líkt og þá sem nú gengur yfir Norðurland.
„Ég bý í timburhúsi á tveimur hæðum, sem er í sjálfu sér bara ágætt, uppá að það standi þetta af sér en það nötrar á sama tíma,“ segir Erla.
Líkt og Fréttablaðið greindi frá gekk stærsti skjálfti dagsins yfir um kvöldmatarleytið í kvöld. Hann mældist 5,7 og segir Erla allt hafa nötrað í langan tíma.
„Ég er bara ein heima með þriggja ára strákinn minn og ég tók hann bara upp og settist með hann hérna út í horn og beið. Af því það kemur einn stór og svo hættir eiginlega bara ekkert að nötra núna, því það eru svo miklir eftirskjálftar.“
Hún segir stöðuna afar svipaða í dag þar sem jörðin nötri á fimm til tíu mínútna fresti.
„Þetta er mjög langir skjálftar. Ég er auðvitað fædd og uppalin á Íslandi en ég hef aldrei upplifað svona áður. Þetta er dálítið rosalegt. Maður er að verða pínu var um sig einhvern veginn og alltaf tilbúinn að bregðast við, samt veit maður ekkert alveg hvað maður á að gera,“ segir hún.
„Og ég svaf illa í nótt því ég vaknaði við svo marga skjálfta. Ég hef aldrei vitað annað eins. Maður veit ekkert hvað maður á að halda, maður bíður bara eftir því að einhverjir sérfræðingar segi eitthvað.“