Í nýrri íbúðatalningu Samtaka iðnaðarins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að framkvæmdir eru hafnar við byggingu 8.113 íbúða á landinu öllu.

Það er fjölgun um 11,7 prósent frá síðustu talningu fyrr á þessu ári. Í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins hefur íbúðum í byggingu hins vegar fjölgað um 37,6 prósent frá síðustu mælingu.

Höfuðborgarsvæðið stendur eftir sem áður að baki 70,2 prósentum af öllum íbúðum sem verið er að reisa um þessar mundir.

Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, hefur verið ötull talsmaður þess að hraða beri uppbyggingu á húsnæðismarkaði í Reykjavík. Hann segist vongóður um að skriður komist á byggingu nýrra íbúða í borginni á næstu mánuðum.

„Okkar áætlanir gera ráð fyrir að um 1.300 nýjar íbúðir verði teknar í notkun í Reykjavík strax á þessu ári. Það er nokkuð yfir árinu í fyrra. Talning Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar er ágæt en þetta er það sem okkar áætlanir segja.“

Einar segir líka mikilvægt að horfa til þess sem er í pípunum, en ekki bara á það sem þegar er á byggingarstigi.

„Ég er sannfærður um að yfir 3.000 íbúðir verði komnar í byggingu á næsta ári í Reykjavík. En þetta ræðst auðvitað líka af aðstæðum á markaði og við finnum það á verktökum að aðföng eru að hækka í verði, sem torveldar þeim að taka erfiðar ákvarðanir.

En ég er samt bjartsýnn. Það er enn gríðarleg eftirspurn eftir nýjum íbúðum. Sá vandi hverfur ekkert þótt Seðlabankinn kæli markaðinn með stýrivaxtahækkunum.“

Áhrif efnahagsþrenginga síðustu mánaða hafi einfaldlega orðið til þess að færri hafi efni á að kaupa sér íbúðir, að mati Einars.

Hann segist vera farinn að sjá betur og betur hvað raunverulega standi í vegi fyrir því að hægt sé að setja meiri kraft í uppbyggingu húsnæðis í höfuðborginni.

„Það sem hefur komið mér einna mest á óvart er hvað sveitarfélög, Reykjavík í þessu tilfelli, hafa raunverulega litla stjórn á uppbyggingunni og byggingarhraða húsnæðis.

Í dag erum við með samþykkt deiliskipulag fyrir um 5.700 íbúðir í Reykjavík. Þar af eru 2.500 íbúðir þegar samþykktar og byggingarhæfar. Á sama tíma horfum við á yfir 2.000 lóðir í eigu einkaaðila þar sem hægt væri að hefja framkvæmdir en borgin hefur ekkert um það að segja hvenær af því verður.“

Þess vegna segist Einar fagna því að innviðaráðherra hafi í hyggju að veita sveitarfélögum ríkari heimildir til að setja þrýsting á verktaka.

„Ellegar missi þeir lóðirnar eða sæti dagsektum. Allt eftir því hvernig þessar heimildir verða útfærðar. Slíkar heimildir myndu skipta miklu máli og hjálpa til við að hraða uppbyggingu,“ segir Einar.

Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs
Fréttablaðið/Valli