Færst hefur í vöxt að foreldrar taki bankalán til að fjármagna fyrstu íbúðarkaup barna sinna. Þetta segir Hannes Steindórsson, formaður Félags fasteignasala.

„Þegar ég keypti fyrstu íbúðina mína fékk ég lán út á hús foreldranna en nú er búið að taka fyrir það. Nú taka margir foreldrar lán og hjálpa unga fólkinu með útborgun, það er gerlegt fyrir marga vegna lágra vaxta. Þetta skýrir að einhverju leyti metumsvif í fyrstu kaupum síðasta ár,“ segir Hannes.

Börn foreldra sem ekki hafa burði til lántöku eða fé aflögu til aðstoðar eiga án aðstoðar erfiðara um vik að festa kaup á húsnæði vegna verðhækkana.

„Húsnæðisverð hefur hækkað gríðarlega undanfarna mánuði og ár, langt umfram kaupmátt og það liggur í hlutarins eðli að ungt fólk sem vill komast inn á eignamarkaðinn þurfi að leita ýmissa leiða. Því kemur mér ekki á óvart ef það færist í vöxt að foreldrar aðstoði börn sín við húsnæðiskaup,“ segir Drífa Hjartardóttir, forseti ASÍ.

40 prósents seldra eigna á höfuðborgarsvæðinu fóru á yfirverði

Hlutdeildarlánin, úrræði tekjulágra til fyrstu íbúðarkaupa, fóru vel af stað en vegna verðhækkana, einkum á höfuðborgarsvæðinu, duga lánin best úti á landi eins og Fréttablaðið hefur fjallað um. Hækkun á íbúðaverði hefur orðið svo mikil síðan lögin voru sett árið 2020 að uppfæra þarf reglur um lánin til að þau gegni hlutverki sínu áfram.

Áframhaldandi stórfelldur skortur á húsnæði til sölu verður næstu tvö til fjögur árin að mati fasteignasala. Bæjarstjórinn á Akureyri sagði í Fréttablaðinu í gær að skipulagsmál yrðu helsta kosningamál sveitarstjórnarkosninganna í vor, enda meiri vöxtur víða og fólksfjölgun en um áratuga skeið.

„Ef vel ætti að vera væru um 2.000 íbúðir til sölu hérna í fjölbýli en þær eru 250,“ segir Hannes Steindórsson.

Verðhækkun húsnæðis var 17 prósent á höfuðborgarsvæðinu frá september 2020-2021. Um 40 prósent eignanna voru seld á yfirverði í nóvember sem er Íslandsmet.

„Það er lóðaskortur og svo vantar líka fleiri verktaka til að byggja allt sem þarf að byggja,“ segir Hannes.