Vikið var frá hefðbundnum viðmiðum á einkabaðherbergjum íbúa á nýju hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ sem verður búið rafdrifnum salernum og vöskum.

Markmiðið með þessu er að stuðla að því að íbúar heimilisins verði meira sjálfbjarga og auðvelda þeim salernisferðir og persónulegt hreinlæti.

Áætlaður kostnaður við nýbygginguna er tæpir 2,6 milljarðar króna og fjármagnar ríkissjóður 85 prósent.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, formaður félags eldri borgara á Suðurnesjum og formaður ungmennaráðs Reykjanesbæjar tóku fyrstu skóflustunguna að hjúkrunarheimilinu þar sem aðstaða verður fyrir 60 íbúa. Áætlað er að það verði tilbúið til notkunar í lok árs 2024.

Þegar nýja heimilið er tilbúið verður hjúkrunarheimilinu Hlé­vangi lokað. Þar búa nú 30 manns en aðstæður þar eru ekki í samræmi við nútímakröfur sem gerðar eru til húsnæðis og aðbúnaðar á hjúkrunarheimilum.