Kín­verska borgin Wu­han, þar sem kórónu­veiran sem veldur CO­VID-19 átti upp­tök sín, hefur nú verið opnuð að nýju eftir margra mánaðar ein­angrun. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Allir þeir sem eru „grænmerktir“ í snjall­síma­forriti frá heil­brigðis­yfir­völdum í Kína mega núna yfir­gefa borgina í fyrsta sinn síðan í janúar. Opnað hefur verið á vegi og lestar til og frá borginni á ný.

Kínversk yfirvöld gáfu einnig út að í dag væri fyrsti dagurinn frá því að far­aldurinn hófst þar sem enginn dó af völdum CO­VID-19 í Kína.

Þrátt fyrir tak­markanir á flugi á heims­vísu eru um 200 flug á flug­á­ætlun frá Wu­han á morgun. Samkvæmt BBC er talið er að um 10.000 manns muni yfir­gefa borgina með flugi. Ríkis­sjón­varpið í Kína birti loftmyndir í kvöld sem sýndu yfir 100 hraðlestar sem eru til­búnar að flytja íbúa borgarinnar burt.

Fordæmalaust ferðabann á 11 milljón manns

Til þess að reyna stöðva út­breiðslu veirunnar í byrjun árs settu kín­versk yfir­völd á for­dæma­laust ferða­bann á 11 milljón íbúa Wu­han. Lokað var á alla leiðir til og frá borginni og var öllum fyrir­tækjum sagt að stöðva starfsemi sína.

Í síðasta mánuði var banninu af­létt að hluta eftir að Wu­han fór heila viku án þess að nein ný smit greindust. Verslunar­mið­stöðvar voru opnaðar í kjölfarið. Í síðustu viku var opnað fyrir al­mennings­sam­göngur í Wuhan en bara fyrir þá sem gátu sýnt fram á að vera með fulla heilsu í snjalla­síma­forriti heil­brigðis­yfir­valda.

Út­göngu­bann er enn í gildi i mörgum borgum Kína meðal annars í höfuð­borginni Peking, þar sem 31 ný smit voru til­kynnt á mánu­daginn.