Íbúar í Hvalfirði hafa lagt fram kæru vegna sprengingar á vegum verktakafyrirtækisins Borgarvirki í gærkvöldi. Skessuhorn greinir frá.

Fréttablaðið greindi frá því fyrr í dag að sprengingin sem átti sér stað í Hvalfirði um hálf sjöleytið í gær hafi verið á vegum Borgarvirkir sem var að sprengja grjót í grjótnámu.

Sprengingin var svo mikil að hún mældist á skjálftamælum Veðurstofunnar og húsin í nágrenni við grjótnámuna nötruðu vegna höggbylgjunnar sem fylgdi henni. Íbúar fengu ekki að vita fyrirfram að til stæði að sprengja grjót þetta kvöld.

Talið er að verktakafyrirtækið hafi brotið í bága við reglugerð um sprengiefni og hafa því þrír íbúar við Hvalfjörð lagt fram formlega kæru til Lögreglunnar á Vesturlandi að sögn Skessuhorns. Þau eru þau Jóhanna Harðardóttir í Hlésey, Brynja Magnúsdóttir í Galtarvík og Lárus Vilhjálmsson í Álfagarði.