Íbúar í Vetrargörðum hyggjast leita réttar síns vegna fyrirhugaðra framkvæmda í stúdentagörðum.

Félagsstofnun stúdenta tilkynnti íbúum á Eggertsgötu 6-8 að þeir þyrftu annað hvort að búa áfram í húsnæði sínu á meðan framkvæmdir standa yfir, eða „velja“ það að flytja í aðrar og jafnvel dýrari íbúðir og greiða hærra verð fyrir. Íbúarnir fengu mánaðarfyrivara.

Vetrargarður er fjölskylduhúsnæði Stúdentagarða en þar búa fjölmargir foreldrar í námi með börn í leikskólum og grunnskólum. Fréttablaðið greindi frá því fyrir helgi að Félagsstofnun Stúdenta hefði tilkynnt fjölskyldunum að þær hafi mánaðarfrest til að flytja út. Ástæðan er sú að FS er að fara í framkvæmdir vegna viðhalds og viðgerða sem munu taka 8 til 12 mánuði. Ákvörðun var tekin í janúar að ráðast í framkvæmdirnar og var ekki minnst á í framkvæmdaáætlun í leigusamningum samkvæmt íbúum sem Fréttablaðið hefur rætt við.

Til háborinnar skammar

Andrea Diljá Edvinsdóttir, íbúi í Vetrargörðum segir þetta enga málsbót fyrir íbúa. Þarna búi fólk með ung börn og nemendur sem eru allir fastir heima í tímum, vegna þess að þeir mega ekki mæta í tíma.

Í svari við bréfi FS skrifar Andrea: „Samkvæmt ykkur, höfum við tvo valkosti: að flytja út (á næstu vikum!) með þeim kostnaði, umstangi, álagi og almennri röskun á líf sem það fylgir - eða þola gríðarlegan hávaða og annars konar ónæði sem framkvæmdum alla daga. Þetta eru afarkostir,“ skrifar Andrea og bætir við að íbúarnir muni í sameiningu sækja rétt sinn til fullnustu í samráði við lögfræðinga.

„Liggur það í augum uppi að hávaði og ónæði í húsnæðinu mun leiða af sér verulega skerðingu á afnotum af húsnæðinu.“

„Enda eru þessi ótrúlega ófagmannlegu vinnubrögð Félagsstofnun stúdenta og háskólanum til háborinnar skammar. Sem dæmi átti ég samtal við starfsmann Umsjónar fasteigna í morgun sem sagði mér að hann hafi heyrt fyrst af þessum framkvæmdaáætlunum í fjölmiðlum í morgun. Hvers konar vinnubrögð eru það að hafa umsjón garðanna ekki einu sinni með í ráðum? Það hefði þó verið ákjósanlegra að hafa íbúa með í ráðum,“ segir Andrea.

Félagsstofnun stúdenta sagði í bréfi til íbúa að ekki væri hægt að veita leiguafslátt vegna flutninga eða framkvæmda. Íbúar taka það ekki í mál og vitna í leigusamninginn og húsaleigulög sér til varnar.

„Ykkur ber skylda til að veita íbúum leiguafslátt vegna ,,verulega skerta afnota eða afnotamissis’’ sbr. 8. gr. leigusamnings og þið ógildið ekki ákvæði gildandi samnings með því að bera það fyrir ykkur áður en framkvæmdir hefjast að afslættir verði ekki veittir, það er hlutlauss úttektaraðila að meta sbr. 21. gr. Húsaleigulaga nr. 36/1994. Í ljósi þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna Covid-19, þar sem háskólanemar neyðast til þess að sækja skólann heiman frá liggur það í augum uppi að hávaði og ónæði í húsnæðinu mun leiða af sér verulega skerðingu á afnotum af húsnæðinu. Ég hefði líka haldið - að þar sem þið berið væntanlega hagsmuni stúdenta fyrir brjósti - að þið gæfuð leigjendum betri fyrirvara fyrir framkvæmdir.“