Enn hreyfingar á hrygg í hlíðinni og lítils­háttar rigning í dag kemur fram í til­kynningu Al­manna­varnar­deild Ríkis­lög­reglu­stjóra.

Þar segir að enn mælist hreyfing á hrygg í hlíðinni á Seyðis­firði milli skriðu­sársins frá desember 2020 og Búðar­ár. Hryggurinn er tals­vert sprunginn og því ekki ó­lík­legt að hann fari niður í smærri brotum fremur en allur í einu.

„Unnið er að út­reikningum á því hvort leiði­garðar og safn­þró taki við því efni sem ó­stöðugt er í hlíðinni, jafn­vel þó það fari allt í einu. Niður­staðan ætti að liggja fyrir strax eftir helgi. Á­kvörðun um af­léttingu rýmingar verður þá tekin.

Engar aðrar hreyfingar hafa mælst í hlíðum ofan Seyðis­fjarðar. Vatns­hæð er hætt að hækka í flestum bor­holum eftir rigninguna á fimmtu­dag og tekin að lækka í sumum þeirra. Gert er ráð fyrir lítils­háttar úr­komu í dag með upp­styttu í nótt. Ekki er gert ráð fyrir úr­komu að nýju á Seyðis­firði fyrr en á mið­viku­dag.

Herðu­breið verður opin í dag og á morgun frá klukkan 14 til 16 líkt og verið hefur. Öll vel­komin.

Ekki er gert ráð fyrir að í­búar geti snúið til síns heima fyrr en eftir helgi. Öll ó­við­komandi um­ferð um skriðu­svæðið er ó­heimil,“ segir í til­kynningunni.