Þriðja tilraun fyrirtækisins D18 ehf. til þess að hefja framkvæmdir við fjölbýlishús við Dunhaga 18-20 hefur fallið í grýttan jarðveg hjá nágrönnum byggingarinnar. Það má lesa út úr athugasemdum sem bárust vegna nýs byggingarleyfis á lóðinni sem auglýst var í sumar. Mál fjölbýlishússins hefur velkst um í borgarkerfinu í rúm þrjú ár en á meðan hefur húsinu verið illa við haldið og hefur það í raun grotnað niður fyrir augum Vesturbæinga.

Umrætt fjölbýlishús er þriggja hæða hátt og í húsinu í dag eru skipulagðar átta íbúðir. Eigandi hússins, D18 ehf., sótti í júlí 2017 um leyfi til þess að byggja fjórðu hæðina ofan á húsið auk þess að minnka og fjölga íbúðum þannig að þær yrðu alls 20 talsins ásamt verslunarrými. Að auki voru ráðgerðar fjölmargar aðrar breytingar á húsinu, til dæmis að rífa bílskúra og byggja viðbyggingu við fyrstu hæð og kjallara.

Byggingarleyfi var veitt til fyrirtækisins en málið var kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þar féll úrskurður ári síðar, þann 20. júlí 2018, og var niðurstaðan sú að byggingarleyfið var fellt úr gildi.

Í kjölfarið lagði eigandi húsnæðisins fram umsókn um nýtt deiliskipulag sem var auglýst þann 26. febrúar til 9. apríl 2019, en þar var þess freistað að fá heimild fyrir uppbyggingunni á lóðinni. Deiluskipulagsbreytingin fór í gegn en aftur felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ákvörðunina úr gildi með úrskurði sem féll 20. mars 2020.

Þriðja tilraunin var svo gerð í sumar með nýrri deiliskipulagsbreytingu og var hún auglýst 17. júlí til 28. ágúst 2020. Fjölmargar athugasemdir frá nágrönnum bárust og eru þær flestar á þá leið að eigendur húsnæðisins hefðu ekki haft neitt samráð við nágranna né tekið tillit til fyrri athugasemda þeirra við uppbygginguna.

Í einni umsögninni er sú afstaða Reykjavíkurborgar að heimila uppbygginguna því húsið sé farið að láta á sjá sögð fráleit. „Hið rétta er auðvitað að D18 ehf. ber að sinna eðlilegu viðhaldi fasteigna sinna, líkt og aðrir á deiliskipulagsreitnum gera og vísvitandi trassaskapur D18 ehf. á viðhaldi hússins er deiliskipulaginu óviðkomandi. Það getur trauðla staðist að fasteignaeigendur séu verðlaunaðir fyrir sóða- og trassaskap með því að fá að byggja háhýsi í grónum hverfum,“ segir í einni athugasemdinni. Þá eru sagðir fjölmargir stjórnsýslulegir annmarkar á tillögunni og meðferð hennar ekki sögð samræmast lögum