„Við skiljum ekki upp né niður í þeirri fjölmiðlaherferð sem Þórdís Lóa [Þórhallsdóttir] hjá Viðreisn hefur leitt gegn mannréttindum íbúa á Kjalarnesi,“ segir í yfirlýsingu íbúa og landeigenda á Kjalarnesi, vegna tilvistar skotæfingasvæða í Álfsnesi.

Íbúar við Kollafjörð hafa um árabil barist gegn skotæfingasvæðunum á Álfsnesi. 21. september síðastliðinn voru nýjustu starfsleyfin, sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gaf út fyrr á þessu ári til handa skotfélögunum tveimur, felld úr gildi. Íbúarnir höfðu kært leyfin til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem segir rekstur skot­æfingavalla ekki samrýmast aðalskipulagi svæðisins.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, hefur sagt að þverpólitískur vilji sé fyrir því hjá borginni að tryggja að starfsemin haldist í Álfsnesi. Kom þetta fram á visir.is á mánudag.

Íbúarnir segja að Þórdís Lóa tali þvert gegn fyrri skilaboðum borgaryfirvalda, sem sagt að núverandi staðsetning skotsvæðanna sé hvorki ásættanleg fyrir íbúa né náttúru. Þetta hafi fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna bókað í mars. Skipulagsfulltrúi borgarinnar hafi hafnað leyfisveitingu til tólf ára og leyfin því aðeins veitt í tvö ár vegna kvartana íbúa.

„Var það skilningur íbúa að friður væri loks komin í fjörðinn, blý og hávaðamengun myndi tilheyra fortíðinni og fólk gæti farið að anda léttar,“ segir í yfirlýsingu íbúanna.

„Núna virðist eins og það eigi að bola okkur öllum burt eins og Reykjavíkurborg gerði á sínum tíma við bæinn Skriðu, þar sem fjölskylda fór í mál vegna hávaðamengunar og málið endaði með að Reykjavíkurborg keypti eignina og seldi með kvöð um að ekki mætti kvarta undan hávaða frá skotsvæðunum. Það er greinilegt að við íbúar á Kjalarnesi búum ekki við sömu mannréttindi og aðrir íbúar í Reykjavík.“

Það bæti gráu ofan á svart að enginn hafi haft samband við íbúana.

„Er látið líta svo út í fjölmiðlum að um nokkra einstaklinga sé að ræða og smávægilegar kvartanir hafi borist. Verkfræðingar sem hafa mælt hávaðamengunina hafa sagt að ekki væri hægt að finna verri staðsetningu en Álfsnes, það er ekkert sem tekur við hvellinum nema hús og fjöll, síðan bergmálar hvellurinn með fram allri Esjunni,“ er aðstæðum lýst.

„Að geta ekki verið úti í garði eða inni í húsi þegar vindáttin er í norður vegna heilsuspillandi hávaðamengunar, hlustandi á börnin sín hlaupa hrædd inn í hús, eru þau mannréttindi sem við höfum þurft að búa við,“ segir einnig í yfirlýsingunni þar sem fullyrt er að nú sjái stór hópur fram á að þurfa að selja eignir sínar og flytja.

„Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur ávallt notað kolranga mæli­aðferð við að mæla hávaðamengunina og hafa viðurkennt að þessi mæliaðferð sýni ranga niðurstöðu, þar sem hávaðatopparnir eru þurrkaðir út,“ segja íbúarnir, sem einnig ræða um blýmengun frá höglum byssumanna sem yfirvöld hafi ekki viljað rannsaka.

„Það er sorglegt að við sem stóðum að kærunni og höfum búið við þessar aðstæður sum í sextán ár, að enginn hefur haft samband við okkur eða íbúaráð Kjalarness til að hlusta á okkar hlið málsins. Það er lágmark að við fáum sæti við borðið eins og skotfélögin.“