Íbúar á Sléttuvegi höfðu ekki erindi sem erfiði er þeir kærðu borgina fyrir að neita að láta fjarlægja upplýsingaskilti, á vegum Landspítalans, við lóð sína.

Upplýsingaskiltið sem sett var upp í fyrra á lóðarfláka sem íbúarnir höfðu tekið í fóstur sögðu þeir fela í sér „verulega sjómengun vegna stærðar sinnar og lýsingar sem sé á skiltinu auk þess sem það gæti blindað útsýni þeirra sem aki Sléttuveginn í austur og taki vinstri beygju upp Háaleitisbraut,“ eins og segir í umfjöllun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Borgin benti á að afnotasamningur vegna skikans snúi einungis að rekstri og umhirðu. Ekkert í samningnum komi í veg fyrir að borgin sem eigandi hans gæti nýtt hann undir skilti enda væri ekki séð að skiltið raski hagsmunum íbúanna. Skiltið sé aðeins 2,32 metrar á breidd og 1,35 metri á hæð og af því sé engin sjómengun.

Skiltið sé aðeins 2,32 metrar á breidd og 1,35 metri á hæð.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þá segir um sjónarmið borgarinnar í umfjöllun úrskurðarnefndarinnar að verkfræðistofa hafi verið fengin til að kanna aðstæður með tilliti til umferðaröryggis.

„Niðurstaða athugunarinnar hafi verið sú að útsýni skerðist óverulega frá gatnamótum. Skiltið sé nauðsynlegt til að leiðbeina þeim sem eigi erindi á Landspítalann og því málefnaleg rök fyrir tilvist þess,“ vitnar úrskurðarnefndin til umsagnar borgarinnar.

Úrskurðarnefndin segir að þar sem engin ákvörðun hafi verið tekin hjá byggingarfulltrúa varðandi uppsetningu skiltisins heyri málið ekki undir nefndina og sé því vísað frá.