Reykjavíkurborg áformar að gera 4,3 hektara landfyllingu í Skerjafirði vegna nýs íbúðahverfis við enda Reykjavíkurflugvallar.

„Strandlengjan verður mótuð þannig að hún líki eftir náttúrulegri strönd og leitast verður við að þar geti myndast leirur á ný í stað þeirra sem raskast,“ segir í kynningu borgarinnar sem kveður landfyllinguna nauðsynlega svo hverfið nái þeirri stærð að verða sjálfbært.

Athugasemdafrestur vegna áformanna rann út fyrr í þessum mánuði og bárust mótmæli frá fjölmörgum íbúum og sömuleiðis frá Landvernd. Rauði þráðurinn er áhyggjur af spilltri ásýnd og eyðileggingu búsvæða fyrir fugla og önnur dýr með því að fjaran hverfi.

„Öllum ætti að vera ljóst að landfyllingin og mannvirki á henni hafa mikil og neikvæð áhrif á landslag og ásýnd. Eftir röskun og landfyllingu verður útkoman manngert grjótmannvirki,“ segir í athugasemdum Landverndar. „Það er erfitt að færa sannfærandi rök fyrir samfélagslegri nauðsyn þess að spilla leirum sem þessum sem lítið er eftir af á höfuðborgarsvæðinu.“

Svokölluð Shellfjara í Skerjafirði á að hverfa undir landfyllingu vegna nýs íbúðahverfis.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Sigurður Áss Grétarsson verkfræðingur, sem starfaði lengi hjá Vegagerðinni og hafði þar meðal annars umsjón með framkvæmdum við Landeyjahöfn, skrifar að það sé rangt sem borgaryfirvöld haldi fram að fjaran sé töluvert röskuð. Samkvæmt skýrslu borgaminjavarðar sé fjaran að mestu óbreytt frá 19. öld. Endurskapa eigi leirur fyrir utan væntanlega landfyllingu. Neðansjávargarður sem eigi að gera í því skyni muni ekki gera neitt gagn.

„Ástæðan er sú að þeir garðar eru það mjóir að úthafsaldan hryggjar upp á görðunum en brotnar ekki og fer því yfir hann,“ skrifar verkfræðingurinn og skorar á borgina að koma hreint fram. „Ef ætlunin er að eyðileggja leirurnar þá á borgin bara að segja það hreint út en ekki blekkja og slá ryki í augu fólks.“

Einar Pétur Jónsson hvetur borgina til að taka tillit til faglegs mats ýmissa stofnana sem gert hafi athugasemdir við mögulega landfyllingu í Shellfjöru Skerjafjarðar.

„Í nafni náttúruverndar og manngæsku biðla ég til skipulagsyfirvalda í Reykjavík um að endurskoða áformin,“ segir í samhljóða athugasemdum í bréfum nokkurra íbúa.

„Ekki láta tískuna og „sjampó sötrandi“ villinga glepja ykkur,“ brýnir Þorbjörg Jónsdóttir fyrir borginni. „Það er hryllingur að ímynda sér að geta ekki notið grænna svæða og fuglalífs á þessum fallega og mikilvæga stað,“ skrifar Júlía Kristjánsdóttir.