Félag sjálfstæðismanna í Grafarvogi deildi á Facebook í vikunni myndum af lágreistu grindverki sem teygir sig út á götu á Melhaga í Vesturbæ. Í færslunni segir að grindverkið skyggi á umferðarmerki og hafi verið reist með vilja borgarinnar – til að styðja við rekstur kaffihúss í nágrenninu. „Okkur hér í Grafarvogi þykir þetta afar sérkennilegt, þó ekki sé meira sagt,“ segir í færslunni. Þar er því haldið fram að smíðaverkið hindri umferð og skerði umferðaröryggi.

Íbúar í götunni og í nágrenninu hafa mótmælt aðfinnslum félags sjálfstæðismanna í Grafarvogi. Þeirra á meðal er Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Hún býr í götunni og segist fara þarna um daglega. „Er mjög ánægð með þetta framtak og þetta útisvæði gerir góða götu enn skemmtilegri,“ segir Svanhildur. Allir íbúar í götunni séu meðvitaðir um framkvæmdina, sem breyti engu. „Áður en tréverkið kom var bílum iðulega lagt þarna, sem hindruðu umferð og útsýni ekki minna. Er ekki kunnugt um að nokkurt slys hafi orðið á þessu horni á þeim tólf árum sem ég hef búið hér,“ segir Svanhildur, sem fær miklar undirtektir með innleggi sínu.

Thorsteinn Hannesson, annar íbúi á Melhaga tekur í svipaðan streng og segir grindverkið skyggja minna á en bílarnir sem áður var lagt á staðnum. Fleiri taka undir. „Sem íbúi í Vesturbæ, í guðanna bænum finnið ykkur eitthvað annað til að tala um en þetta. Kaffihúsið Brauð og co og nánasta umhverfi til algerar fyrirmyndar,“ segir Finnur nokkur Hilmarsson.

Í niðurlagi færslunnar segir sjálfstæðisfélagið að það muni skora á borgarfulltrúa flokksins í borginni að spyrjast fyrir um málið.