„Blýmengunin er grafalvarleg og getum við ekki séð hvernig hægt verður að hreinsa í hið minnsta tugir tonna af blýi sem liggja í sjónum og fjörunni í Kollafirði,“ segir í bréfi sem ber undirskriftir 49 einstaklinga sem búa undir Esjunni gegnt Álfsnesi og krefjast þess að skotæfingavæði á Álfsnesi verði lögð af.

Félögin sem eru með æfingasvæði á Álfsnesi eru Skotfélag Reykjavíkur og Skotfélagið Reyn. Skotæfingarnar hófust sumarið 2005 og um langt árabil hafa íbúar þar nærri kvartað undan hávaða og annarri mengun frá svæðunum. Fyrir rúmum fimm árum keypti Reykjavíkurborg eignina Skriðu eftir áralangar kvartanir frá eigendununm þar. Íbúasamtök á Kjalarnesi hafa lengi látið málið til sín taka. Farið er ítarlega yfir stöðu málsins frá sjónarhóli íbúanna í bréfinu sem er 48 síður með ljósmyndum af vettvangi, aðstæðum á svæðinu og ýmsu öðru efni. Fullyrt er að skotmenn á Álfnesi noti mjög mikið af blýhöglum.

„Ísland er eina landið á Norðurlöndunum sem bannar ekki blý á æfingar-skotvöllum og eitt af fáu löndum í Evrópu, sem ekki bannar notkun blý á vatnafugla né í kringum votlendi, þvert á móti þá gefur Reykjavíkurborg tveimur skotfélögum land á Álfsnesi alveg við ströndina í Kollafirði (mikilvægt votlendi) þar sem allir haglabyssu vellirnir eru hannaðir þannig að þeir skjóta beint út í sjóinn, þar sem blýin liggja að lágmarki í tugum tonna við ströndina og í sjónum,“ segir í bréfi íbúanna.

Skotfélag Reykjavíkur og Skotfélagið Reyn eru mað æfingasvæði á Álfsnesi.

Rakið er að margir fuglar éti litla steina til að hjálpa við meltingu. Þeir ruglist á blýhöglum sem festist í meltingarveginum og dragi þá til dauða. „Í hverju haglabyssuhylki er að finna 300 til 500 högl, aðeins nokkur þeirra lenda á skotmarkinu (leirdúfum) hin halda ferð sinni áfram og enda flest öll í sjónum en einnig við fjöruna í Kollafirði við þessa mikilvægu sjófuglabyggð,“ segja íbúarnir.

Að sögn bréfritaranna hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur daufheyrst við athugasemdum þeirra og ekki gert sér grein fyrir vandanum. Þar sem heilbrigðiseftirlitinu þyki kvartanir þeirr svaraverðar muni þeir láta þýða samantekt sína á ensku og senda til hlutlausra aðila erlendis enda sé margar fuglategundirnar sem séu hættu vegna af blýeitrunar í Kollafirði farfuglar. Segjast þeir meðal annars munu senda skrif sín til umhverfisráðherra hinna Norðurlandanna.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur lagði til í mars í að Skotfélag Reykjavíkur fengi framlengingu á sínu leyfi á Álfsnesi til eins árs á meðan nýtt starfsleyfi sé í vinnslu. „Tíminn sem vinnst með framlengingu yrði notaður til frekari rannsóknum á mengun af völdum starfseminnar og niðurstöður nýttar við útgáfu nýs starfsleyfis,“ segir í bréfi heilbrigðiseftirlitsins.

Þó að borgin hafi nú samþykkt að framlengja leyfi Skotfélags Reykjavíkur í eitt ár virðist sem þar sé vilji til að starfsemin hverfi annað. „Æskilegt væri að hafin yrði vinna við að finna Skotveiðifélaginu nýjan stað fyrir æfingasvæði sitt í ljósi þeirra kvartana sem borist hafa frá íbúum í nágrenni svæðisins. Tilvalið væri að nota næsta ár í þá vinnu,“ segir í umsögn skipulagsfulltrúa vegna málsins.