Fjöl­margir með­limir Face­book hópsins „Lang­holts­hverfi - 104“ hafa mót­mælt brott­vísun senegölsku hjónanna Bassirou Ndia­ye og Mahe Diouf. Hjónin hafa starfað í næstum sjö ár en nú stendur til að vísa þeim úr landi.

Kvöldfréttir Stöðvar 2 og Vísir.is greindu frá brott­vísun fjöl­skyldunnar í gærkvöldi en hjónin eiga tvær dætur, Mörtu sem er sex ára og Maríu sem er þriggja ára. Stelpurnar eru báðar eru fæddar hér og landi og eru íbúum Vogahverfis kunnugar þar sem sú eldri er í Voga­skóla og sú yngri á leik­skólanum Lang­holt.

Einn íbúi í Lang­holts­hverfi bjó til þráð þar sem hún skrifar um hversu sárt það er horfa upp á þetta og hvetur aðra íbúa til að deila frétt Vísis frá því í gær.

„Þessi börn eru fædd á Ís­landi og hafa aldrei upp­lifað annað en líf í þessu sam­fé­lagi. Þau tala reip­rennandi ís­lensku og eiga rétt á að þroskast með vinum sínum á­fram. Vinsa­lega deilið þessari frétt í kringum ykkur! Sýnum ná­grönnum okkar sam­stöðu,“ segir í færslunni sem hátt í 400 í­búar hafa líkað við.

Hjónin hafa barist fyrir því að fá dvalar­leyfi hér­lendis á grund­velli mann­úðar­sjónar­miða í sex ár án árangurs. Í sam­tali við Vísi segir Mahe, móðir barnanna, að staða kvenna í Senegal sé slæm og hætta er á kyn­færa­li­m­lestingum hjá börnum.

„Getum við ekki látið sér­stak­lega í okkur heyra sem ná­grannar?“

Í­búar í Lang­holthverfi fara fögrum orðum um fjöl­skylduna og segir einn íbúi fjöl­skylduna vera til fyrir­myndar. „Svo flott fólk og fyrir­myndar­fjöl­skylda- yndis­leg!! Alveg fá­rán­leg og sorg­leg með­ferð á fólki,“ segir í færslunni.

„Hryllingur, getum við ekki látið sér­stak­lega í okkur heyra sem ná­grannar?“ skrifar einn íbúi. „Ó­trú­lega sorg­legt að sjá yndis­lega ná­granna okkar lenda í þessu. Börnin eru ís­lensk og ó­huggu­legt að það skuli ekki virt,“ skrifar annar.

Einn íbúi stakk upp á því að for­eldrar barna í Voga­skóla mæti fyrir utan skólann og sýni sam­stöðu með fjöl­skyldunni og hafa aðrir í­búar í Voga­hverfi tekið vel í það.

Þá hafa í­búar Voga­hverfis komið á fót undir­skrifta­söfnun til að mót­mæla brott­vísun fjöl­skyldunnar.