„Ég kalla þetta bara þrúgandi hávaða,“ segir Axel Hrafn Helgason, íbúi í Aratúni í Garðabæ. Íbúar í Túnunum þar í bæ segjast búa við verstu hljóðvist allra íbúa í Garðabæ. Hljóðmælingar sem gerðar hafa verið sýna að umferðarhávaði frá Hafnarfjarðarvegi er vel yfir leyfilegum mörkum hjá nærliggjandi húsum og krefja íbúar bæjaryfirvöld um aðgerðir. Ljóst sé að hljóðveggur sem komið var upp fyrir nokkrum árum geri lítið sem ekkert gagn.

Axel Hrafn og móðir hans sem býr í Goðatúni sendu bæjaryfirvöldum erindi vegna þessa sem tekið var fyrir í bæjarráði á þriðjudag. Í erindinu vísa þau til reglugerðar sem segi að hljóðstig eigi ekki að fara yfir 50 desíbel á kyrrlátu svæði og 55 desíbel við húsvegg. Túnin við Hafnarfjarðarveg séu samkvæmt mælingum á bilinu 60 til 65 desíbel og 55-60 desíbel.

Gagnrýnin beinist að vegg sem komið var upp fyrir nokkrum árum, í daglegu tali kallaður græna girðingin. Enda lítur hún kannski meira út eins og girðing fremur en hljóðmön við eina umferðarþyngstu samgönguæð höfuðborgarsvæðisins. Axel Hrafn segir hávaðann viðvarandi langt fram á kvöld og eiginlega allan sólarhringinn. Hafnarfjarðarvegur sé bara þannig umferðaræð og þarna fari rúmlega 40 þúsund bílar um á sólarhring. Nú þegar veður sé gott taki íbúar miklu meira eftir hávaðanum og nær ólíft sé að vera úti í garði fyrir vikið.

Veggur þessi, eða hljóðmön, er sem fyrr segir ekki gömul og reist að sögn Axels eftir að hann flutti í Túnin fyrir um fjórum árum. Hans tilfinning er að ástandið hafi versnað. Þá flæki málið að um er að ræða stofnbraut sem sé á forræði Vegagerðarinnar.

„Vegagerðin vildi fá þennan vegg sem fjærst stofnbrautinni af ýmsum ástæðum en vandinn er að svona veggur þarf að vera sem næst upptökunum til að virka. Hann er það langt frá að hann er hættur að virka og hávaðinn kastast bara yfir,“ segir Axel, sem skilst að kostnaður við vegginn hafi verið umtalsverður. „Það er því sorglegt ef svona framkvæmd skilar litlum eða engum árangri.“

Bæjarráð vísaði erindinu til nánari skoðunar hjá tækni- og umhverfissviði bæjarins.