Þörfin á að byggja upp úrræði fyrir heimilislausa í höfuðborginni er brýn en alls eru um 80 einstaklingar á biðlista. Reykjavíkurborg tilkynnti um mitt síðasta ár að hún hygðist reisa 25 smáhýsi á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Erfiðlega hefur þó gengið að finna heppilega staði fyrir umrædd hýsi.

Fyrst var ákveðið að reisa fimm slík hýsi á reit við Héðinsgötu og féll sú ákvörðun í grýttan jarðveg. Síðan þá hefur verkefnið dregist talsvert allt þar til að velferðarsvið Reykjavíkurborgar valdi loks þrjár lóðir og auglýsti væntanlegar breytingar á deiliskipulagi.

Umræddar lóðir eru við Eskihlíð og Guðrúnartún, þar sem þrjú hýsi eiga að rísa á hvorri lóð. Þá eiga fimm hýsi að rísa við lóð á Veðurstofuhæð.

Ekki eru allir á eitt sáttir við þessar fyrirhuguðu framkvæmdir. Hópur íbúa tók sig saman og skrifaði bréf um málið þar sem hvatt er til þess að áætlunum borgarinnar verði mótmælt. Í bréfinu er bent á úrræðin sem fyrir eru í hverfinu, Konukot í Eskihlíð og heimili fyrir tvígreinda karlmenn við Miklubraut. Segir í bréfinu að íbúar verði varir við þessa starfsemi. Víða séu sprautur og sprautunálar í nærumhverfinu, til dæmis í anddyrum blokka og húsgörðum. Lögregla og sjúkralið séu tíðir gestir og vísað er í nokkrar skelfilegar uppákomur. Meðal annars morð á heimilinu á Miklubraut fyrir nokkrum árum og hnífsstungu sem gestur Konukots bar ábyrgð á.

Þá eigi fjölmörg börn leið um hverfið dag hvern til þess að sækja æfingar hjá Knattspyrnufélaginu Val og þriðja þunga úrræðið í hverfið sé því afar óheppilegt.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, segist hafa fullan skilning á afstöðu íbúa og að athugasemdirnar verði teknar til athugunar áður en tillagan verði afgreidd. „Það er réttur íbúa að gera athugasemdir við deiliskipulagsbreytingar. En það er líka mikilvægt að finna góðar lóðir fyrir þessi litlu hús sem við erum að koma fyrir í borginni fyrir fólk sem vantar heimili. Við gerum allt sem við getum til að finna góðar staðsetningar í sátt við íbúa og umhverfi.“