„Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu,“ ég hafði aldrei heyrt af þessu máli, segir Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri Hörgársveitar, í samtali við Fréttablaðið.

Landsmenn eru slegnir óhug eftir afhjúpun sem fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 um kynferðisbrot gegn börnum á vistheimili á Hjalteyri við Eyjafjörð. Hjalteyri er hluti Hörgársveitar. Brotin áttu sér stað á sjöunda áratug síðustu aldar.

Aldrei borið á góma

Snorri hefur búið nokkur ár í Hörgárbyggð. Segir hann að málið hafi aldrei borið á góma síðan hann flutti í héraðið. Hann segist ekki leggja mat á hvort íbúarnir vissu ekkert eða hvort málið hafi legið í þagnargildi meðal þeirra sem höfðu grunsemdir um að ekki væri allt sem skyldi.

„Ég tek undir með öðrum sem hafa tjáð sig að það þarf að fara í opinbera rannsókn á þessu heimili í samræmi við aðrar sambærilegar rannsóknir á öðrum heimilum.“

Brugðust þeim sem síst skyldi

Snorri segir um andrúmsloftið meðal íbúanna eftir afhjúpunina þar sem fólk lýsti hræðilegri reynslu sinni af dvöl, sem átti að bæta líf þeirra eftir erfiðar uppvaxtaraðstæður sem kölluðu á flutning frá foreldrum þeirra.

„Menn eru bara gapandi hissa, það eru allir gáttaðir á að þetta hafi viðgengist.“

Málið verður rætt á fundum sveitarstjórnar. Snorri segir að sveitarstjórn muni leggja rannsókninni lið eins og hægt er. Frumkvæðið hljóti þó að koma frá ríkinu ef marka má gang mála við fyrri rannsóknir.