Íbúar í ferðamannabænum Urueña á Spáni eru hræddir við fjölgun heimsókna ferðamanna í bæinn eftir COVID-19 faraldurinn. Ekkert tilfelli sjúkdómsins hefur greinst í bænum, sem er staðsettur 50 kílómetra frá borginni Valladolid, en ráðstafanir vegna COVID-19 voru gerðar í bænum viku áður en tilskipanir bárust frá spænskum yfirvöldum um lokanir vegna sjúkdómsins.

Alls 200 manns búa í bænum en yfir sumartímann margfaldast fólksfjöldi þar með ferðamönnum og segja bæjarbúar einungis tímaspursmál hvenær tilfelli COVID-19 greinist í bænum. Franscisco Rodriguez, bæjarstjóri Urueña, segir bæinn lifa á ferðamönnum en að hann telji ekki skynsamlegt að taka við fjölda ferðamanna nú, heldur væri eðlilegra að taka við smærri hópum og barnafjölskyldum.

Um 60 prósent íbúa í Urueña eru sjötíu ára og eldri svo stór hópur bæjarbúa er í svokölluðum áhættuhópi vegna COVID-19. Luis Enrique Valdés, íbúi í bænum, segir valið því afar erfitt, að passa upp á smitvarnir eða að ná upp efnahagnum með heimsóknum ferðamanna í bæinn.