Aurskriða féll niður brekku og ofan tvö hús á Laugavegi í Varmahlíð í Skagafirði um klukkan fjögur í dag. Feykir.is greindi fyrst frá.

Lögreglan á Norðurlandi vestra er á vettvangi að meta stöðuna en íbúar í Varmahlíð eru æfir af reiði vegna aðgerðarleysis yfirvalda. Götunni fyrir ofan Laugaveg hefur verið í lokað í nokkurn tíma og segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, að verktakar hafi verið á svæðinu að vinna í sprungu sem hafði myndast á veginum.

„Það er eins gott að fjölskyldan var ekki heima,“ segir Erna Geirsdóttir, íbúi í Varmahlíð. Erna býr í götunni í nálægð við húsin sem urðu fyrir miklu tjóni í aurskriðunni.

„Ég horfi hér á drullufjöll. Skriðan fór yfir götuna okkar og lokaði henni alveg þar til hún stoppaði við kantsteininn.“

Brekkan hefur verið að skríða fram í átt að Laugavegi í um fjóra mánuði.
Mynd: Erna Geirsdóttir

Bæjaryfirvöld vissu af hættunni

Hún útskýrir í samtali við Fréttablaðið að vandamálið hafi verið viðvarandi í um fjóra mánuði. Bæjaryfirvöld sem og hitaveitan hafi vitað af hættunni en lítið aðhafst.

Jarðfræðingur mætti á svæðið fyrir nokkru og bannaði börnum að sofa í húsinu fyrir neðan brekkuna, þeim megin sem aurskriðan féll. En banninu var síðar aflétt. Til allrar lukku var íbúinn í húsi númer sautján ekki heima þegar aurskriðan féll.

„Brekkan í næstu götu fyrir ofan okkur hefur verið smátt og smátt að skríða fram í um fjóra mánuði,“ útskýrir Erna en að hennar mati hefur sveitarfélagið dregið lappirnar í þessu máli.

Vatn hefur runnið milli húsanna síðustu þrjár vikur eins og bæjarlækur og drulludý hefur myndast fyrir aftan húsin á Laugavegi.

Aurskriðan féll úr hliðinna fyrir ofan Laugaveg 15 og 17.
Mynd: Björn Bjarnason