Sjálfsbjargarheimilið í Hátúni hefur tekið í notkun 4G-bjöllukerfi fyrir skjólstæðinga sína. Samkvæmt Alvican, sem flytur hnappana inn, er þetta í fyrsta sinn sem slíkt kerfi er innleitt fyrir slíka starfsemi hér á landi.

Alda Ásgeirsdóttir, sviðsstjóri hjúkrunar, segir mikla ánægju vera með hnappana. Þeir veiti íbúunum meira öryggi og séu þægilegir fyrir starfsfólk.„Hægt er að hringja í hnappana og heyra í íbúunum okkar, hvar sem er. Einnig er staðsetningarbúnaður sem getur gert okkur kleift að fylgjast með íbúa ef þess er þörf og leyfi hefur verið gefið fyrir því,“ segir Alda.

Hnappar af þessu tagi geta einnig sagt til um ef einhver dettur. „Varðandi fall þá hefur ekki reynt á það hjá okkur, en það er ekki spurning að ef viðkomandi dettur myndi hnappurinn hringja og einnig getur íbúinn hringt á okkur hvar sem hann er staddur, úti eða inni.“