Hópur Vestur­bæinga hefur tekið sig saman og hyggst boða til í­búa­fundar vegna þeirrar hættu sem virðist sí­fellt skapast í um­ferðinni við Hring­braut. Fjöldi fólks hefur fengið sig full­saddan á því að öku­menn virði ekki rétt hinna gangandi veg­faranda og hafa fjöl­margir deilt sögum inn á hverfis­hópinn „Vestur­bærinn“ á Face­book eftir að greint var frá að ekið hefði verið á barn á mótum Meistara­valla og Hring­brautar í morgun. 

Sjá einnig: Ekið á barn við Hring­braut

Guð­rún Birna Brynjars­dóttir, móðir og íbúi í Vestur­bæ, er meðal þeirra sem leggur orð í belg og óskaði hún þar eftir að fá fólk með sér í lið til að skipu­leggja í­búa­fund um mál­efni Hring­brautarinnar og úr­bætur á nú­verandi á­standi.

„Pólitískur ábendingaleikur“

„Ég er búin að ganga með þessa hug­mynd síðan í fyrra þegar það var næstum því keyrt á son minn,“ segir hún í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann hafi þá verið fjögurra ára á leið yfir götuna, Hofs­valla­götu­megin, í fylgd með föður sínum, þegar bíll kemur á fullri ferð en minnstu mátti muna að illa færi. Feðgarnir höfðu lagt af stað yfir götuna á grænu göngu­ljósi en bíllinn komið inn í beygjuna á fullri ferð. 

Hún segir að við­brögðin við færslunni hennar hafi verið mjög góð. Fjöldi fólks hafi lýst yfir á­huga að skipu­leggja fundinn og sé nú svo komið að fjögur ætli að hittast á þriðju­dag í næstu viku til að leggja drög að í­búa­fundi sem hún bindur vonir við að fram fari í febrúar. Fyrir­hugað sé að bjóða full­trúm Vega­gerðarinnar, Reykja­víkur­borgar, lög­reglunnar og sam­göngu­ráðu­neytisins. 

Hún kveðst hafa fengið vil­yrði frá G. Pétri Matthías­syni, upp­lýsinga­full­trúa Vega­gerðarinnar, um að stofnunin myndi senda full­trúa. Hún gagn­rýnir þó við­brögð borgarinnar og Vega­gerðarinnar þegar kallað hefur verið eftir úr­bótum á Hring­braut. „Þetta er ein­hver pólitískur á­bendinga­leikur,“ segir Guð­rún Birna. 

„Það þarf að fylgja þessu eftir áður en það verður hrein­lega dauðs­fall.“ 

Á annað hundrað manns hafa brugðist við deilingu fréttarinnar um slysið í morgun inni á hverfishópnum. At­vikið kemur fáum á ó­vart og lýsa fjöl­margir reynslu sinni á verstu köflum götunnar.

Foreldrar komnir með nóg

„Guð ég vona að það verði í lagi með barnið. En já ég sé þetta svo ó­trú­lega oft að fólk keyri yfir á eldrauðu,“ skrifar ein. Þess ber að geta að sam­kvæmt upp­lýsingum lög­reglu er barnið ekki talið al­var­lega slasað. 

„Þessi gatna­mót eru hættu­leg full­orðnu fólki og það vita það allir sem hafa gengið þau. Þau verða svo sturluð á háanna­tíma,“ skrifar annar og þá eru fleiri sem velta því fyrir sér hvaða úr­bætur standi til boða. 

Meðal þess sem kemur fram er að göngu­vörður standi þar vaktina og fylgi skóla­börnum yfir götuna og í tóm­stundir. Annar leggur til að lögð verði göng undir götuna og spyr hvort pláss sé fyrir slíkt. Þriðji segir að lausnin sé að þrengja Hring­braut, frá JL-húsinu að Suður­götu, eða hrein­lega leggja hana í stokk.

Hópur foreldra í Vesturbæjarskóla hefur tekið sig saman og ætlar að sýna hug sinn í verki og fylgja börnum yfir Hringbraut til skóla. Aðgerðinni er ætlað að vekja athygli yfirvalda á því að úrbóta sé þörf við Hringbraut og þeim megi ekki fresta lengur.