Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flutti ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna seint í gær. Leiðarstefið í ræðu hennar var sameiginleg ábyrgð þjóða á þeim gildum sem alþjóðakerfið byggir á. Í ræðu sinni fjallaði hún einnig um innrás Rússa í Úkraínu, umhverfis- og loftslagsmál og mannréttindi og mál Mahsa Amini í Íran.

„Hvort sem við erum fulltrúar risaveldis eða eins af þeim rúmlega sjötíu aðildarríkjum sem hafa, líkt og Ísland, innan við eina milljón íbúa þá eigum við öll jafn mörg sæti við borðið, hvert okkar hefur eitt atkvæði og við megum öll láta rödd okkar heyrast úr þessum ræðustól,“ sagði ráðherra í ræðunni.

Stríðið í Úkraínu var ráðherra ofarlega í huga í ræðunni, sem hún sagði hrollvekjandi áminningu um hvernig heimurinn liti út ef eyðileggingaröfl fengju að ráða örlögum þjóða frekar en sköpunargeta.

„Því vil ég árétta áður en ég fjalla um alþjóðamálin að öðru leyti að í þágu mannkyns verður Úkraína að sigra. Árás Rússlands verður að hrinda og þeim sem bera ábyrgð á voðaverkum í skjóli innrásarinnar verður að refsa.”

Sviatlana Tsikhanouskaja berst fyrir þessum gildum í þágu fólksins í Belarús. Þetta eru gildin sem konur og stúlkur í Afganistan fá ekki notið. Og það er á grunni þessara gilda sem ekki verður við það unað að Masha Amini hafi látist af barsmíðum í Íran fyrir að bera ekki höfuðklút í samræmi við opinber fyrirmæli

Þórdís Kolbrún fjallaði um ýmsar aðrar áskoranir samtímans, til dæmis náttúruhamfarir vegna hlýnunar jarðar, fátækt og fæðuskort og hvaða lærdóm mætti draga af heimsfaraldri kórónuveiru sem hefði afhjúpað alvarlegar brotalamir í viðbrögðum þjóða við hnattrænum krísum, en einnig að framtíðin myndi leiða í ljós hversu skynsamleg viðbrögð heimsins við faraldrinum voru. Þá minnti hún á nauðsyn þess að standa vörð um heilbrigði hafsins og sjálfbæra auðlindanýtingu og benti í því sambandi á hve vel hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna hefði reynst.

Tjáningarfrelsið eigi víða í vök að verjast

Mannréttindamál voru fyrirferðarmikil í ræðunni og lýsti ráðherra meðal annars áhyggjum af uppgangi kynþáttahaturs, gyðingahaturs og þjóðernisöfga víða um heim. Þá ætti tjáningarfrelsið víða í vök að verjast, ríki á borð við Rússland dreifðu vísvitandi áróðri og samsæriskenningum og kæfðu alla gagnrýna þjóðfélagsumræðu. Samfélög þar sem ekki mætti draga í efa yfirvöld og þeirra boðskap gætu ekki með nokkru móti talist frjáls.

„Ef fólki á að takast að finna þær róttæku lausnir sem heimurinn þarf svo á að halda nú verður það að geta hnekkt kyrrstöðu. Það verður að geta látið skoðanir sínar í ljós og rætt viðkvæmustu málefni á opinskáan hátt.

„Sviatlana Tsikhanouskaja berst fyrir þessum gildum í þágu fólksins í Belarús. Þetta eru gildin sem konur og stúlkur í Afganistan fá ekki notið. Og það er á grunni þessara gilda sem ekki verður við það unað að Masha Amini hafi látist af barsmíðum í Íran fyrir að bera ekki höfuðklút í samræmi við opinber fyrirmæli,“ sagði Þórdís Kolbrún í ræðu sinni.

Hún lauk ávarpinu á áminningu til leiðtoga heimsins um að vinna saman að þeim áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir.

„Ég er þakklát fyrir að fá tækifæri til að ávarpa 77. allsherjarþingið og vera enn einu sinni minnt á að þrátt fyrir allt sé það hinn hefðbundni farvegur alþjóðsamskipta að þjóðir heims komi saman og skiptist á hugmyndum og skoðunum á siðmenntaðan hátt og þau ríki sem brjóta reglurnar hljóta nánast undantekningalaust fordæmingu,“ sagði Þórdís Kolbrún að lokum.

Hægt er að horfa á ávarpið hér að neðan og lesa ræðuna í heild sinni hér.