Að minnsta kosti átján eru látnir og þrettán er saknað fetir að fellibylurinn Hagibis reið yfir Japanseyjar í gær. Japönsk yfirvöld hafa kallað út 27 þúsund hermenn og björgunarsveitarmenn til að vinna að björgunaraðgerðum um allt land. Yfirvöld óttast að mun fleiri hafi látist í óveðrinu.

Fellibylurinn gekk á land í gærkvöldi sunnan við Tókýó og fylgdu honum úrhellisrigning og vindhviður sem náðu allt að 60 metrum á sekúndu. Hann fór svo norður yfir landið og olli miklum flóðum. Hagibis fór af landi nokkrum klukkustundum síðar og hefur nú dregið verulega úr krafti hans.

Flestar ár í norðurhluta landsins flæddu yfir bakka sína.
Fréttablaðið/Getty

Ástandið er slæmt um allan norðurhluta landsins þar sem ár flæddu flestar hverjar yfir bakka sína og inn í borgirnar. Margir sitja nú fastir á heimilum sínum og bíða þess að vaskir björgunarsveitarmenn eða hermenn komi þeim til bjargar. Í borginni Kawagoe, rétt norðan við Tókýó, hafa björgunarmenn notast við báta til koma fólki í öruggt skjól.

Björgunarmenn hafa notast við báta og þyrlur til að komast að fólki.
Fréttablaðið/Getty

Enn er raf­magns- og vatns­laust á nærri 150 þúsund heimilum á höfuð­borgar­svæði Tókýó. Sam­göngur eru þó að fara aftur af stað í kringum höfuð­borgina og verður lík­lega eitt­hvað flogið þaðan í dag.

Misstu sjötuga konu úr þyrlu

Einnig hefur verið notast við þyrlur til að ná til fólks en ekki alltaf með sem bestum árangri því er­lendir fjöl­miðlar hafa greint frá því hvernig björgunar­menn misstu konu á átt­ræðis­aldri frá borði einnar þyrlunnar. Hún lést við fallið.

Ó­veðrið er sagt það mesta sem geysað hefur í Japan í 60 ár en í gær mældist mesta rigning, sem mælst hefur, í tvo sólar­hringa sam­fleytt. „Við höfum aldrei fengið svona mikil flóð,“ sagði bóndi nokkur sem býr í grennd við borgina Hi­gas­himatsu­yama, norð­vestur af höfuð­borginni.

Frétt BBC um málið.

Feðgar virða fyrir sér flóðið.
Fréttablaðið/Getty
Ljóst er að tjónið af völdum fellibylsins er gríðarlegt.
Fréttablaðið/Getty