Móðir barns, sem tekið var úr umsjón hennar í fjóra mánuði árið 2013, segist vera ánægð með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu en dómurinn hefur viðurkennt skaðabótaábyrgð Reykjavíkurborgar. Íslenska ríkið hefur þegar greitt foreldrunum bætur vegna ólögmætra aðgerða lögreglu og Barnaverndarstofu.

„Þó að það var fallist á málatilbúnað okkar þá í svona máli er enginn sigurvegari. Síðan þori ég ekki að vera of stóryrt á dóminn sjálfan þar sem það hefur ekki enn komið í ljós hvort að borgin muni áfrýja,“ segir móðirin í samtali við Fréttablaðið en hún vill ekki láta nafn síns getið. „Lengi getur vont versnað og það kæmi mér ekkert á óvart ef þau myndu draga okkur í gegnum þetta í einhvern tíma í viðbót, bara eins lengi og þau geta.“

Engin fjárhæð bætir upp fyrir tjón fjölskyldunnar

Móðirin var grunuð um að hafa beitt barnið, sem var þá níu mánaða, líkamlegu ofbeldi en málið hófst seint í maí 2013 þegar barnið veiktist. Barnið var í vistun á vegum Barnavarnarnefndar frá byrjun júní til loka júlí og síðan hjá föðurforeldrum, og síðar móðurforeldrum, til níunda október. „Það eru engar miskabætur sem að bæta upp fyrir það tjón sem við höfum hlotið,“ segir móðirin en auk skaðabóta þarf borgin að greiða fjölskyldunni alls átta milljónir í miskabætur.

Í dóminum kemur fram að aðgerðir borgarinnar „hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu [móðurinnar],“ en ekki hefur verið ákveðið hver fjárhæð skaðabótanna verða. „Reykjavíkurborg hefur allan tímann sett stein í götu okkar, frá upphafi til enda, og aldrei viljað viðurkenna mistök eða nokkurn skapaðan hlut,“ segir móðirin en hún vonar nú að sjá breytingar hjá borginni og Barnavernd.

„Vona að við getum öll sammælst um að þetta sé ekki í lagi"

„Það sem að ég vil samt sjá, og er tilgangurinn með þessu öllu, eru breytingar á verklagi hjá Barnavernd og það er til lítils unnið ef þau breyta ekki verklagsreglum,“ segir móðirin en hún segir að vandað hafi verið til verka við dóminn og að Reykjavíkurborg hafi enga ástæðu til þess að halda málinu áfram.

„Það var aldrei deilt um atburðarrás eða neitt slíkt heldur bara í sjálfu sér bara hvort að þessi framkoma sé í lagi og ég ætla nú að vona að við getum öll sammælst um að þetta sé ekki í lagi,“ segir hún að lokum.