Í stóra samhenginu stendur Ísland gríðarlega vel, segir heilbrigðisráðherra en í dag kynnti ríkisstjórnin tilslakanir sem taka gildi þann 28. ágúst næstkomandi.

Með nýjum tilslökunum sem taka gildi á laugardag geta sýningar og keppnir og aðrir viðburðir farið á fullt. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á sjálf marga miða í leikhús og getur bráðum farið að nýta þá.

Ætlar þú að kíkja í leikhús?

„Ég á mjög marga miða í leikhús,“ segir Svandís glöð í bragði.

Hægt er að lesa um það nánar um nýjar tilslakanir hér en ráðherrann útskýrir þær í stuttu máli:

„Það eru full afköst í sundlaugum og líkamsrækt. Að iðkendum verður fjölgað upp í 200 manns á íþróttaæfingum og keppnum og í sviðslistum og að eins metra regla falli niður meðal áhorfenda á sitjandi viðburðum. Veitingasala verður heimiluð í hléum og leyfilegur hámarksfjöldi á veitingastöðum fer úr 100 í 200,“ útskýrir heilbrigðisráðherra í samtali við Fréttablaðið.

Hver er framtíðarsýnin?

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur rætt um framtíðarsýn sína og mikilvægi þess að hafa temprun á því hvernig nýjar veirur komist inn í landið. Svandís segir ríkisstjórnina að sjálfsögðu ræða framtíðarplön þrátt fyrir kosningar.

„Við erum alltaf að ræða þetta en að sjálfsögðu er þetta háð breytilegum forsendum,“ útskýrir Svandís.

„Ef við förum að sjá ný afbrigði sem eru meira smitandi eða leggjast frekar á börn eða eru alvarlegri á einhvern hátt þá þurfum við mögulega aftur að grípa til ráðstafana. En við verðum bara að horfast í augu við það og hafa úthaldið í það að vega og meta með reglubundnum hætti eins og við höfum verið að gera. Veiran er einfaldlega dagskrárstjórinn í þessu verkefni.“

En hversu langt fram í tímann getur ríkisstjórn gert plön nú þegar kosningar eru framundan?

„Umboð ríkisstjórnar er skýrt þangað til næsta ríkisstjórn tekur við. Að jafnaði höfum við litið svo á að á kjördegi, eða af afloknum kjördegi, sitji sitjandi ríkisstjórn og haldi takti í stjórnarráðinu en sé ekki í stöðu til að taka stórar eða stefnumarkandi ákvarðanir inn í framtíð heldur bíði eftir að næsta ríkisstjórn taki við. Þetta er auðvitað áskorun en um leið er mikilvægt að eiga stöðugt samtal við fjölmiðla og almenning. Það hafa auðvitað verið gerðar skoðanakannanir með reglubundnum hætti á því hversu mikill stuðningur er við sóttvarnaraðgerðir, almannavarnir og heilbrigðiskerfið og við búum við mikla samstöðu í íslensku samfélagi. Ég vona að við getum eins mikið og hægt er haldið því striki fram að og yfir kosningar.“

„Í stóra samhenginu stendur Ísland gríðarlega vel“

Síðastliðinn sólarhring greindust 103 einstaklingar með Covid-19 innanlands og einn lést á Landspítalanum vegna veirusjúkdómsins. Eftir að bólusetningar hófust hefur þó alvarlegum tilfellum fækkað og segir ráðherra að í stóra samhenginu gangi Íslandi vel.

Banda­ríska sjón­varps­stöðin CNN gerði árangur Ís­lands í bar­áttunni gegn CO­VID-19 að um­fjöllunar­efni í nýjasta þætti frétta­mannsins Ander­son Cooper. Þar var meðal annars rætt við Þór­ólf Guðna­son, Pál Matthías­son og Má Kristjáns­son og vekur það at­hygli Ís­lendinga að þar er tölu­vert annar tónn í um­ræðunni en gjarnan hér heima.

Aðspurð um umfjöllunina segir Svandís:

„Umræðan er alltaf svo afstæð. Þegar við skoðum árangur okkar í samanburði við önnur lönd, þ.e. fjölda andláta eða hversu vel gengur að bólusetja, þá stöndum við afspyrnu vel. Spítalinn og heilbrigðiskerfið hefur staðið sig mjög vel og hefur í raun staðist þetta álag og sinnt öllum sjúklingum, sveigt sína starfsemi, byggt upp göngudeildir. Heilsugæslan hefur staðið sig vel á heimsmælikvarða bæði í bólusetningum og sýnatökum. En síðan þegar við berum saman stöðuna innanlands í dag við stöðuna fyrir tveimur árum þá sjáum við að þetta er býsna mikið álag. Við erum í mönnunarvanda og viljum sjá hlutina ganga hraðar og betur fyrir sig en í stóra samhenginu stendur Ísland gríðarlega vel. “