Þriðjudagurinn 29. desember er sú dagsetning sem Evrópusambandið horfir á til að samþykkja COVID-19 bóluefni Pfizer og BioNTech og 12. janúar fyrir bóluefni Moderna. Bretar voru fyrstir þjóða til að samþykkja bóluefni á þriðjudag og búist er við því að Bandaríkjamenn fylgi í kjölfarið. Þess er vænst að fyrstu bólusetningarnar í Bretlandi hefjist um miðjan mánuðinn. Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna hefur boðað til fundar 10. desember um heimild til að nota bóluefnið.

„Miðað við þær upplýsingar sem við höfum getum við ekki búist við öðru en að samþykki liggi fyrir í kringum áramót,“ sagði Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, við fréttastofuna AP. Þjóðverjar, líkt og margar aðrar Evrópuþjóðir, höfðu vonast til að geta hafið bólusetningar fyrir jól. COVID-19 tilfelli eru nú komin yfir eina milljón í landinu og ríkisstjórn Angelu Merkel hefur styrkt hið þýska BioNTech um tæplega 60 milljarða króna.

Á blaðamannafundi á þriðjudag kynnti Emmanuel Macron Frakklandsforseti bólusetningaráform landsins. Byrjað verður að bólusetja 650 þúsund manns á dvalarheimilum landsins, síðan fólk yfir 65 ára, síðan yfir 50 ára og yngra fólk í áhættuhópum, síðan þá sem hafa orðið útsettir fyrir smiti og loks 18 ára og eldri. Sagði hann bólusetningu ekki verða skyldu í landinu. Síðasti fasinn mun þó ekki hefjast fyrr en í apríl, maí eða júní.

Rússar og Kínverjar vinna nú hörðum höndum að því að koma sínum bóluefnum á markað um heim allan. Vestrænar þjóðir hafa haft efasemdir um hið rússneska Sputnik efni og segja það ekki uppfylla nauðsynlega staðla. Kínverjar eru þegar komnir í startholurnar fyrir dreifingu á sínum efnum til ýmissa landa Asíu, Afríku og Suður- Ameríku þó þeir hafi sjálfir ekki heimilað dreifingu til almennings heima fyrir.

Þó að mikill skriður sé kominn á málefni bólusetninga og eðlilegra líf í augsýn, er ljóst að sóttvarnaaðgerðir og takmarkanir munu halda áfram á næsta ári. Mun það taka nokkur ár að bólusetja milljarða fólks um heim allan.

Í Bretlandi, þar sem ferlið er lengst á veg komið, var útgöngubanni aflétt í gær en afar strangar samkomutakmarkanir verða áfram í gangi, mismiklar eftir svæðum út frá tilfellatíðni. 53 þingmenn Íhaldsflokksins kusu gegn tillögunum í þinginu á þriðjudagskvöld og 16 sátu hjá, þrátt fyrir mikinn þrýsting Borisar Johnson og flokksforystunnar. Þurfti Johnson að reiða sig á hjásetu stjórnarandstöðunnar til þess að koma breytingunum í gegn.

Er þetta mesta andstaða sem Johnson hefur mætt innan eigin raða eftir þingkosningarnar síðasta haust. Töldu uppreisnarmennirnir tillögurnar of víðtækar og að þær settu of miklar kvaðir á fólk og fyrirtæki. Í þinginu sagði Johnson Breta þurfa að þrauka í nokkra mánuði til viðbótar áður en bólusetningar hæfust í stórum stíl.