Amerie Jo Garza, tíu ára stúlka í fjórða bekk Robb-barnaskólans í Uvalde í Texas, var skotin til bana þegar árásarmaðurinn sá hana draga upp símann sinn til að hringja eftir aðstoð. Amerie var í hópi nítján barna sem drepin voru af hinum 18 ára gamla Salvador Ramos í gær.
Bandarískir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um skotárásina í gær sem er sú mannskæðasta í skólum Bandaríkjanna frá árinu 2012.
Berlinda Irene Arreola missti barnabarn sitt, Amerie, í árásinni í gær og ræddi hún þennan skelfilega atburð við blaðamann Daily Beast í gærkvöldi. Berlinda segist hafa fengið þær upplýsingar að Ramos hafi gengið, þungvopnaður og í hlífðargalla, inn í skólastofuna þar sem Amerie og bekkjarfélagar hennar sátu og tilkynnt þeim að þau myndu öll deyja.
Berlinda segir að Amerie hafi verið með símann sinn á sér og hafi reynt að hringja í neyðarlínuna eftir aðstoð. Þegar Ramos tók eftir því að hún var að hringja hafi hann skotið hana til bana. „Í stað þess að taka símann af henni og brjóta hann þá skaut hann hana. Hún sat við hliðina á besta vini sínum þegar þetta gerðist,“ sagði Berlinda við Daily Beast.
Robb-barnaskólinn er ætlaður nemendum í fyrsta til fjórða bekk og létust nítján börn sem fyrr segir auk tveggja kennara. Tíu ára stúlka liggur lífshættulega slösuð á sjúkrahúsi og þá er 66 ára kona, sem talin er vera amma Ramos, einnig í lífshættu á sjúkrahúsi.
Ramos, sem var 18 ára, var skotinn til bana fyrir utan skólann í gær. Honum var lýst sem hlédrægum og hæglátum einstaklingi en hafði þó látið í veðri vaka á samfélagsmiðlum að hann myndi mögulega fremja voðaverk af þessu tagi.