Gal­vaskur ferða­maður gerði sér lítið fyrir og skellti sér að eld­gosinu í Geldingadölum í risa­eðlu­búning. Mynd­band af ferða­manninum að dansa fyrir framan rætur eld­gossins fer nú sem eldur í sinu um sam­fé­lags­miðla.

Ferða­maðurinn á­kvað að stilla sér upp nálægt eldgosinu í búningnum og dansa en undir myndbandinu má heyra þemalagið úr Jurassic-Park myndunum. Svo virðist sem að uppátækið hafi skemmt öðrum gestum við eld­gosið þar sem einhverjir hafa ákveðið að grípa í símana og taka risaeðluna upp.

„Ég gat ekki staðist mátið. Ég varð að taka risa­eðlu­búninginn með mér til Ís­lands fyrir þetta augna­blik,“ skrifar ferða­maðurinn undir mynd­bandið sem hann hefur birt á TikTok. Textinn með myndbandinu er á ensku og því að öllum líkindum um erlendan ferðamann að ræða.

@mikemezphoto

It was the perfect moment and all my training came to this. #iceland #lava #volcano #dinosaur

♬ Jurassic Park Theme - Voidoid

„Lífshættulegur fíflaskapur - ekki hetjuskapur“

Lög­reglan á Suður­nesjum sendi frá sér til­kynningu í gær þar sem hún varar fólk við „lífs­hættu­legum fífla­skap.“

„Eld­gosa­svæði er hættu­legur staður að vera á og al­menn skyn­semi ætti því að segja fólki að nauð­syn­legt er að gæta var­úðar, hlusta á og fara eftir ráð­leggingum við­bragðs­aðila og vísinda­manna. Sem betur fer hafa ekki orðið mjög al­var­leg slys á fólki, þó að stundum hafi ekki mátt miklu muna,“ segir í til­kynningu lög­reglunnar.

Til­kynning lög­reglunnar beinist þó aðal­lega að því að fólk sé að ganga út í hraunið en ekkert kemur þar fram um ferða­menn í risa­eðlu­búning.

„Nú hefur borið hefur á því undan­farið að fólk gangi út á hraunið á gos­stöðvunum. Ekki þarf að fjöl­yrða um hversu hættu­legt at­hæfi þetta er. Al­gjör­lega er ó­víst hvort ný­storknað yfir­borð hrauns haldi og undir því getur verið rauð­glóandi kvika. Þá er rétt að benda á að fólk er með þessu að setja björgunar­aðila í al­gjör­lega von­lausa stöðu fari hlutirnir á versta veg,“ segir enn fremur í til­kynningunni.

„Maðurinn má sín lítils gagn­vart náttúru­öflunum sem þarna eru á ferðinni, ef eitt­hvað fer úr­skeiðis. Á gossvæðinu er hættan raun­veru­leg og þarna er fólk statt í raun­veru­leikanum, en ekki fyrir framan tölvu þar sem hlutirnir ganga út á sýndar­veru­leika og hægt er að kaupa sér líf.“