Ljósmæður bregðast nú við tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem birt var fyrr í dag með því að birta myndir af launaseðlum sínum í Facebook-hópnum Mæður og feður standa með Ljósmæðrum.

Þær segja tilkynningu ráðuneytisins vera bull og laun þeirra ekki nærri jafn há og kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins. Miklar umræður hafa skapast við þráðinn þar sem þeim er þakkað fyrir að deila þessum upplýsingum. Segir meðal annars í athugasemdum að ráðuneytið sé að reyna að grafa undan ljósmæðrum með bulli og rugli.

Sjá einnig: Segja ljós­mæður hafa fengið launa­hækkun um­­­fram aðra

Sú sem fyrst deildi launaseðli sínum er Ella Björg Rögnvaldsdóttir ljósmóðir, sem starfaði í rúmt ár á Landspítalanum þar til hún hætti síðustu mánaðamót. Hún segir mikla gremju meðal ljósmæðra og segir tilkynningu ráðuneytisins varpa ljósi á vanþekkingu þar á þeirra launum og kjörum.

„Það er náttúrulega mikil gremja meðal ljósmæðra þegar fjármálaráðherra hefur ekki betri þekkingu á laununum okkar og haldi virkilega að það sé nóg að nota barnaskólamargföldun til þess að sjá hvað við erum með í heildarlaun. Það lýsir alveg ótrúlegri vanþekkingu af manni í þetta hárri stöðu,“ segir Ella Björg í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hún segir það óþolandi að reynt sé að villa fyrir fólki með uppreiknuðum tölum.

„Ef að manneskja er í 20 prósent vinnu þá vinnur hún helgarvinnu. Þá vinnurðu aðra hvora eða þriðju hvora helgi og ef þú reiknar það upp í 100 prósent vinnu þá ertu farin að vinna ansi margar helgar í mánuðinum. Fleiri helgar en eru í mánuðinum,“ segir Ella og segir það ekki ganga upp að reikna álagsvaktir upp í 100, því ekki sé í boði að taka 100 álagsvaktir á einum mánuði. „Það er verið að upp reikna álag sem er ekki til staðar,“ segir Ella að lokum.

Launaseðil hennar er hægt að sjá hér að neðan, myndinni er deilt með hennar leyfi. 

Erfitt að vinna fulla vinnu án þess að brjóta lög um hvíldartíma

Ragna Þóra Samúelsdóttir deildi einnig mynd af sínum launaseðli inn í Facebook-hópinn. Hún starfaði einnig á Landspítalanum í rúmt ár, þar til hún hætti síðustu mánaðamót.

„Launaseðillinn minn sýnir greidd laun fyrir 80 prósent starfshlutfall. Það er í raun erfitt að vinna 100 prósent vinnu án þess að brjóta lög um hvíldartíma,“ segir Ragna Þóra Samúelsdóttir, ljósmóðir á Landspítalanum.

„Við erum ekki mjög margar í meira en 80 til 90 prósenta vinnu. Ég tek mikið af kvöldvöktum, næturvinnu. Ég vinn líka helgarvaktir þriðju hverja helgi og allt að tólf tíma vaktir um helgar,“ segir Ragna og bætir við  „Maður er ekki með þessar átta hundruð þúsund krónur sem Bjarni vill meina að við séum með.“

Launaseðil Rögnu er hægt að sjá hér að neðan, honum er einnig deilt með hennar leyfi.