Ágúst Ólafur Ágústs­son, þing­maður Sam­fylkingarinnar, hlaut í síðustu viku á­minningu frá trúnaðar­nefnd flokksins. Á­stæðan eru sam­skipti hans og konu nokkurrar í mið­bæ Reykja­víkur liðið sumar. Hann kveðst þar hafa orðið sér til skammar og hafi í kjöl­farið leitað sér fag­legrar að­stoðar. Að sama skapi hefur hann óskað eftir tveggja mánaða launa­lausu leyfi frá þinginu vegna málsins. 

At­vikið átti sér stað í mið­bænum líkt og fyrr segir en konuna þekkir hann lítil­lega. Þau hafi hist, rætt saman og farið yfir á vinnu­stað hennar

„Þegar þangað var komið héldum við sam­ræðunum á­fram. Því miður hafði ég mis­skilið illi­lega á hvaða for­sendum við vorum stödd þar og nálgaðist ég hana tví­vegis ó­um­beðinn og spurði hvort við ættum að kyssast. Svar hennar var nei og hún gaf mér skýrt til kynna að það væri ekki í boði með því að banda mér frá sér. Tekið skal fram að það var al­ger­lega mín ranga á­lyktun að slíkt væri í boði.“ 

Hann kveðst hafa brugðist við með höfnuninni með því að láta mjög særandi orð falla um hana.

Segir hann hafa valdið sér vanlíðan

„Ég er ekki stoltur af þeim orðum eða fram­komu minni og veg­ferð al­mennt þetta kvöld. Ég varð mér ein­fald­lega til há­borinnar skammar. Hún bað mig því næst að fara, sem ég og gerði.“

Nokkru síðar hafi hún haft sam­band við hann og rætt upp­lifun sína við hann og sagt honum að fram­koman hafi valdið henni van­líðan, meðal annars vegna þeirrar stöðu sem hann gegnir. 

„Ég bað hana inni­lega af­sökunar á að hafa látið henni líða svona. Við töluðum síðan aftur saman og áttum síðar sér­stakan fund þar sem hún út­skýrði fyrir mér hvaða á­hrif þetta hafi haft á sig.“

Leitar sér faglegrar aðstoðar

Málið hafi hún til­kynnt trúnaðar­nefnd flokksins og þau bæði komið fyrir nefndina og lýst at­burða­rásinni. Hann kveðst fyrir framan nefndina hafa lýst yfir iðrun sinni og vilja til að bæta fram­komuna. Niður­staðan hafi legið fyrir í síðustu viku. Hann hafi fengið á­minningu. 

„Ég vil þess vegna skýra frá því að ég hef á­kveðið að leita mér fag­legrar að­stoðar vegna þessarar fram­komu minnar. Ég tel einnig rétt að ganga lengra en trúnaðar­nefndin leggur til og hef því óskað eftir launa­lausu leyfi frá þing­störfum í tvo mánuði,“ segir hann og bætir við að lokum. 

„Ég vil nota tæki­færið og í­treka af­sökunar­beiðni mína til við­komandi. Mér þykir afar leitt að hafa sýnt henni þessa fram­komu.“