Brátt verða lestarsamgöngur að veruleika á Íslandi, þótt lestin fari ekki víða. Kríuveitingar ehf. í Grímsey hafa keypt litla farþegalest sem mun fara með gesti í ferðir umhverfis eyjuna.

Lestin var áður í eigu Eysteins Yngvasonar, sem notaði hana í Viðey á meðan hann rak Viðeyjarferjuna.

„Við sáum lestina auglýsta til sölu og okkur fannst hún sniðug fyrir Grímsey, þar sem það er mikið af skemmtiferðaskipum og farþegum sem kemur á eyjuna,“ sagði Unnur Ingólfsdóttir, sem rekur veitingastaðinn Kríuna. „Það eru ótrúlega margir sem eiga erfitt með gang og annað.“

Lestin er með tveimur vögnum og tekur fimmtíu farþega. Unnur segist búast við því að lestin verði vel notuð því að stundum komi tvö skemmtiferðaskip samtímis til Grímseyjar og eru þá allt að 500 manns á eynni. Lestin er á gúmmíhjólum og þarfnast því ekki teina. „Það mætti bara laga aðeins holurnar í götunni.“

Eyjólfur, sem rak Grímseyjarferjuna um skeið, segir lestina hafa verið bæði gagnlegt og skemmtilegt stemningstæki í Viðey og hafi sér í lagi hjálpað eldra fólki sem átti erfitt með að ganga á grófum vegi þar.

„Þetta var allt mjög erfitt fyrir fólk sem var orðið fullorðið.“