Hópur vísindamanna frá Háskóla Íslands er við GPS mælingar alla vikuna vegna landriss í Öskju. Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur og vísindamaður við Jarðvísindastofnun HÍ, leiðir hópinn sem gistir í Dreka, skammt frá Drekagili.

Síðustu vikur hafa mælst hraðar landbreytingar við Öskju og er algengasta túlkunin að kvika sé að flæða úr kvikugeymi. Freysteinn segir að kvikustreymi gæti hætt eins skyndilega og það byrjar og vísindamenn þurfa að bæta við mælum til að fylgjast vel með atburðarásinni.

„Eldfjöll eins og Askja, sem eru sigkatlar, eru með miklar þrýstibreytingar og jarðskorpuhreyfingar geta orðið hraðari og meiri en víða annars staðar. Það sem hefur gerst á undanförnum vikum er frekar hratt landris þannig að við þurfum að fylgjast með. Það er ekki hægt að segja til um nákvæmlega hvað gerist en ein sviðsmyndin er klárlega að þetta hætti án þess að komi til frekari umbrota,“ segir Freysteinn í samtali við Fréttablaðið.

Skálinn við Drekagil við Öskju þar sem jarðvísindahópurinn hefur bækistöðvar sínar í rannsóknarleiðangrinum.
Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

Hópurinn er í kapphlaupi við tímann að fá nákvæm gögn þar sem erfitt er að mæla landris með gervitunglamyndum þegar snjór leggst yfir fjöllin . Megintilgangurinn við rannsóknirnar er að varpa skýrara ljósi á þá atburðarás sem á sér stað.

„Við þurfum að fá góða mynd af jarðskorpuhreyfingum á yfirborði og tilgangurinn er að meta hvað skýrir þessa þrýstiaukningu. Hvort það sé bergkvika sem er að troða sér í jarðskorpuna. Með því að mæla munstur jarðskorpuhreyfinga á yfirborði getum við gert líkan af því sem er að gerast neðanjarðar,“ segir Freysteinn.

4 til 8 millímetra nákvæmni

Stór hluti vinnunnar er fjallganga.

„Við höfum gert GPS landmælingar á neti mælipunkta í Öskju og nágrenni á undanförnum árum og nú erum við að fara á sömu punktana til að sjá hvort jarðskorpan hafi hreyfst til þar. Það er ekki hægt að nálgast ákveðna punkta á bíl þannig að við förum gangandi,“ segir Freysteinn.

Síðan þarf að stilla upp mælum og safna gögnum til að bera saman við eldri mælingar. Mælingarnar eru mjög nákvæmar að sögn Freysteins.

„Loftnetið nemur merki úr gervitunglum og út frá því er reiknuð staðsetning sem við berum saman við sömu stöðvar frá síðustu árum og sjáum bæði lóðréttar og láréttar hreyfingar með fjögurra til átta millímetra nákvæmni.“

Svo verða gögnin sett inn í reiknilíkan sem mun útskýra færslurnar á yfirborðinu.

Jarðskjálftamælir við Öskju.
Mynd: Sveinbjörn Steinþórsson

Byggja á mælingum frá 1966

Askja er merkilegt svæði hvað varðar mælingar en þar hefur lengst verið fylgst með jarðskorpuhreyfingum á Íslandi, eða frá 1966. Þar voru þróaðar aðferðir sem hafa verið nýttar alþjóðlega til að mæla breytingar á eldfjöllum.

„Það er löng saga af mælingum á jarðskorpuhreyfingum í Öskju. Við byggjum á mælingum sem byrjuðu 1966.“

Við Öskjuvatn.
Jarðvísindastofnun HÍ/Sveinbjörn Steinþórsson