Mikil eftir­vænting er meðal fé­laga í Heims­sýn, hreyfingu sjálf­stæðis­sinna í Evrópu­málum, fyrir hóp­ferð sem skipu­lögð er til Bret­lands þann 31. janúar í til­efni af Brexit. Gunn­laugur Ingvars­son, for­maður Frelsis­flokksins, sem sér um skráningu í ferðina segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hug­myndin hafi hlotið góðar undir­tektir.

Hópurinn greinir frá ferðinni á Face­book síðunni sinni en fé­lagið hefur barist gegn inn­göngu Ís­lands í Evrópu­sam­bandið. Þar kemur fram að ferða­lagið sé í undir­búningi enda um heim­sögu­legan við­burð að ræða. Stefnt er að brott­för fimmtu­daginn 30. janúar og heim­komu sunnu­daginn 2. febrúar. „Það eru bara mjög góðar undir­tektir og ég held að þarna muni fara góður hópur,“ segir Gunn­laugur, spurður út í skráninguna. „Við höfum fylgst með þessu máli í mörg ár.“

Segir Brexit grund­vallar­breytingu fyrir Ís­land

Hallur Halls­son, frétta­maður, rit­höfundur og harður and­stæðingur gegn inn­göngu Ís­lands í ESB, mun koma til með að vera farar­stjóri og segir á Face­book að ýmsir mark­verðir staðir verða heim­sóttir. Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Hallur ferðina farna í ljósi þess að hér séu á ferðinni stór­tíðindi, það er að segja út­ganga Bret­lands úr Evrópu­sam­bandinu.

„Þetta er náttúru­lega grund­vallar­breyting og sú stærsta í Evrópu og mesta frá dögum kalda stríðsins. Að svona stórt ríki fari út. Það voru auð­vitað stór­tíðindi þegar Evrópu­sam­bandið stækkaði á tíunda ára­tugnum eftir fall Sovét­ríkjanna,“ segir Hallur.

„En að Bret­land fari út eru ein stærstu tíðindin á þessari öld. Þessar tvær stóru kosningar frá 2016 hafa breytt allri dýnamík í hinum engil­sax­neska heimi og Evrópu­sam­bandið er að missa lykil­leik­mann úr sínum röðum,“ segir Hallur. Spurður segir hann að hér á ferðinni fagnaðar­efni sem hafi miklar breytingar í för með sér.

„Þegar menn velta þessu fyrir sér hefur þetta grund­vallar­breytingar í för með sér fyrir Ís­land líka. Það er ekki bara Bret­land sem er að fara út heldu eru Banda­ríkin líka að breyta um utan­ríkis­stefnu og haga hug á að hætta þessum styrj­öldum þarna í Mið­austur­löndum,“ segir Hallur.

„En fyrir Ís­land blasir í raun og veru ný ver­öld við. Og ég held því fram að þessi ver­öld þýði að Ís­land þurfi að breyta um utan­ríkis­stefnu og ein­angri sig ekki inn í Evrópu. Heldur geri At­lants­eyjarnar þrjár í norðri að grund­vallar­þema í utan­ríkis­stefnunni sinni.“

Þar vísar Hallur til Græn­lands, Fær­eyja og Ís­lands og segir hann að þau eigi að mynda ó­rofa banda­lag og geri frí­verslunar­samninga við Bret­land og Banda­ríkin. Hann segir Ís­land fyrst og fremst At­lants­þjóð en ekki Evrópu­þjóð. „Við höfum ekki enn dregið okkar um­sögn til baka en þetta eru stór­tíðindi fyrir Ís­land og grund­vallar­breytingar.“

Ætla að heim­sækja breska þingið og styttur af leið­togum

Spurður hvert förinni sé heitið í ferð Heims­sýnar til Bret­lands þann 31. janúar segir Hallur að breska þingið verði meðal annars heim­sótt. „Nú eru átta ár frá því að Váfuglinn var gefinn út í Bret­landi við fót­stall Churchill og í breska þinginu og þar voru margir máls­metandi menn sem voru og eru, börðust mjög hart, fyrir því að Bret­land færi úr Evrópu­sam­bandinu á þeim tíma,“ segir Hallur.

„Þá litu Bretar til Ís­lands, sem var reyndar um­sóknar­ríki á þeim tíma, en Ís­land var þá mikil fyrir­mynd. Og þá hvarflaði ekki að einum einasta manni í neðri deildinni, í þessari vöggu lýð­ræðisins, að Bret­land myndi sam­þykkja út­göngu fjórum árum síðar og ganga út úr Evrópu­sam­bandinu átta árum síðar.

Fyrir utan þing­salinn eru styttur af stærstu leið­togum Bret­lands, það er að segja mjög stórar styttur en aðrir fá bara brjóst­mynd, af for­sætis­ráð­herrunum. Þetta eru Churchill og Thatcher og Lloyd Geor­ge og Att­lee. Við erum bara ó­sköp hóg­værir í þessu.“