Hita­bylgja gengur nú yfir megin­land Evrópu. Hita­met var slegið á Ítalíu í fyrradag þegar hiti náði 48,8 gráðum á Sikil­ey í gær. Búist er við því að hita­bylgjan færi sig yfir til bæði Po­rtúgal og Spánar en á Tyrk­landi, Grikk­landi og Alsír hafa gríðar­legir skógar­eldar brunnið undan­farna daga og hiti verið mikill. Fréttablaðið náði tali af fólki sem er nú statt á Spáni og á Ítalíu.

Taka því rólega yfir heitasta tímann

Sig­geir F. Ævars­son, fram­kvæmda­stjóri Sið­menntar, er í fríi á suður-Ítalíu á­samt eigin­konu sinni, Soffíu og vina­fólki. Í dgær var hann í bænum Foggia þar sem hitinn var í kringum 36 gráður. Þau voru á norður­leið en hann á von á því að hitinn verði enn meiri í bænum seinna í vikunni.

„Bærinn er sunnar­lega en fyrir miðri Ítalíu og það eru 36 gráður hérna í dag,“ segir Sig­geir í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann segir að daginn sem þau lentu hafi verið 42 gráðu hiti.

„Við vorum spurð þá hvað væri góður sumar­dagur á Ís­landi og sögðum að þá væri hitinn um 20 gráður og var sagt að það væru „bara“ 40 gráður núna,“ segir hann og hlær.

Hann segir að þó svo að hitinn sé 36 gráður sé bæri­legt að vera þarna en segir að á­standið sé miklu verra þegar farið er sunnar í landinu. Greint var frá því í gær að hita­met hefði verið slegið á Sikil­ey þar sem hitinn náði um 49 gráðum.

„Ítalir taka því ró­lega yfir heitasta tímann og bara loka verslunum og þá er gott að leggja sig og bíða þess að sólin lækki að­eins á lofti,“ segir hann.

Hann segir að fjöl­skylda konunnar hans sé á Sikil­ey og þar sé staðan allt önnur.

Á myndinni til vinstri er Siggeir með Soffíu konu sinni og þeim Alessandra og Matteo. Á myndinni til hægri má sjá Bergnýju fremst og svo manninn hennar Alberto og son hennar, Roc.
Mynd/Samsett

Hitinn meiri núna en áður

Berg­ný Heiða Steins hefur verið bú­sett í Barcelona á Spáni í mörg ár og var í hita­móki. Hitinn í Barcelona er þó ekki nærri því eins mikill og hann er í, til dæmis, Madríd eða sunnar í landinu.

„Þar á það að fara yfir 45 gráður,“ segir Berg­ný Heiða en hitinn í Barcelona var nærri 30 gráðum í dag.

Hún segir að þótt svo að hitinn sé ekki eins mikill hjá þeim finni þau mikið fyrir af­leiðingum hita­bylgjunnar eins og skógar­eldum.

„Ég bý í litlum bæ nærri Barcelona og hann er um­kringdur skógi. Hann er núna lokaður. Við förum oft þangað upp að labba en hann verður lokaður í það minnsta næstu tíu dagana,“ segir Berg­ný.

Hún segir að alla jafna sé bannað að vera með opinn eld á slíkum stöðum en að það sé auð­vitað ekki heldur mælt með því núna.

„Sér­stak­lega núna. Það eru staðir inni í skóginum sem eru opnir al­menningi og þar er hægt að grilla. En þeir eru allir lokaðir núna. Það er ekki svo langt síðan það var stór skógar­eldur á Costa Brava þar sem að stórt svæði brann,“ segir Berg­ný.

Er þetta nýtt, þessar fréttir?

„Það eru alltaf skógar­eldar á hverju sumri en ég man ekki eftir að það hafa verið svona mikið eins og núna,“ segir Berg­ný.

Berg­ný býr á Barcelona með manni sínum og barni og segir að til að verjast hitanum noti þau ýmsar leiðir eins og að halda til inni og drekka nóg af vökva.

„Við erum svo heppin að vera með sund­laug þannig hún er notuð ó­spart. En í dag erum við bara inni eða í skugganum. Við borðuðum inni í há­deginu því það var svalara þar,“ segir hún.

Hún segir að í leið­beiningum yfir­valda sé fólki bent á að draga fyrir, drekka mikið vatn og setja loft­kælingu eða viftu í gang.

Sumrin vari lengur

Hún segir að henni finnist hitinn ekki endi­lega hafa hækkað mikið frá því að hún fluttist til Spánar en segir að hún finni fyrir því að sumrin séu að byrja seinna og vara lengur fram á haust.

„Ég man alveg eftir heitari sumrum en sumarið byrjar seinna og varir lengur. Það er enn gott sumar í byrjun októ­ber. Þá fer beint úr sumri í vetur,“ segir Berg­ný Heiða.

Hún segir að þetta sé mikið til um­fjöllunar í fjöl­miðlum og á meðal vina hennar en þó sé veðrið aldrei eins tíð­rætt og hjá fólki hér á Ís­landi.

„Ég er eina meðal vina minna sem veit alltaf hvort að það sé sól daginn eftir eða ekki,“ segir hún og hlær.