Allir Íslendingar hafa keyrt undir Hafnarfjalli á leið sinni norður eða vestur á land. Reyndar er um fjallaklasa að ræða og nafnið Hafnarfjöll, eins og þeirra er getið í Eglu og Landnámu, því meira viðeigandi. Er talið að landnámsjörð Skallagríms Kveldúlfssonar hafi náð suður að þessum tignarlegu fjöllum sem kennd eru við bæinn Höfn við sunnanverðan Borgarfjörð. Við rætur Hafnarfjalls er Hafnarskógur, birkiskógur sem má muna sinn fífil fegurri, aðallega vegna ofbeitar.

Hafnarfjöllin láta hins vegar ekkert á sjá, eins og íbúar Borgarness geta vitnað um, en fá ef nokkur bæjarstæði á Íslandi geta státað af öðru eins útsýni. Þarna er þó óveðrasamt og flestir landsmenn tengja veginn undir Hafnarfjalli við sviptivinda sem geta lokað þjóðveginum. En veðravítið á sér aðra og bjartari hlið því í góðu veðri eru Hafnarfjöll tvímælalaust með skemmtilegri gönguleiðum á suðvesturhorni landsins.

Flestir hefja gönguna á Hafnarfjöll að norðanverðu, skammt frá Borgarfjarðarbrú, en einnig má leggja til atlögu að sunnanverðu frá Ölveri. Frá bílastæði norðan megin er gengið upp allbrattan hrygg vestan megin á Hafnarfjalli. Niður af honum blasa við svokallaðar Flyðrur, klettanef sem standa upp úr skriðunum vestan í fjallinu, og setja sterkan svip á Hafnarfjall. Þarna býðst einstakt útsýni yfir Faxaflóa, sunnanvert Snæfellsnes og Snæfellsjökul, en líka Borgarnes og Borgarfjörð. Áfram er haldið í austur á hæsta tindinn, Gildalshnjúk (854 m) en af honum blasir við vestanvert miðhálendið líkt og Skessuhorn, Skarðsheiði, Akrafjall og Esja.

Næst tekur við svipmesti tindur fjallgarðsins sem á mörgum kortum er nafnlaus en sumir kalla Þvertind eða Miðtind. Af honum er haldið niður á við að nafnlausri geil sem liggur í gegnum mikið klettabelti og getur verið snúið að finna. Þarna verður að troðast í gegn til að bæta við fleiri tindum sem bíða í snyrtilegri röð og afmarka skeifulaga dalverpi. Þeirra helstir eru Klausturtunguhóll (751 m), síðan Katlaþúfa (778 m), Þverfell (682 m) og Tungukollur (635 m) uns komið er niður í Innra-Seleyrargil.

Aðeins lengri en síður brött leið liggur niður í Grjóteyrardal. Þetta er tæplega 9 km hringur sem ætti að vera flestum fær og tekur daginn. Helsta áskorunin er að finna geilina í klettabeltinu og því skynsamlegt að vera í för með staðkunnugum og notast við GPS-ferla. En í góðu veðri eru Hafnarfjöll himnaríki líkust og gangan frábær skemmtun.

Ganga eftir Hafnarfjöllum er algjör tindaveisla og útsýnið frábært. Hér er horft til suðurs. Mynd/ÓMB
Útsýni til austurs af Hafnarfjalli. Mynd/ÓMB