Kínverjar og Bandaríkjamenn eiga nú í illdeilum vegna kínversks loftbelgs sem svífur yfir miðjum Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn segja loftbelginn vera ætlaðan til njósna og að flug hans inni í bandarískri lofthelgi sé skýrt brot á fullveldi Bandaríkjanna.

Loftbelgurinn sást fyrst yfir Montana í norðurhluta Bandaríkjanna í gær en er nú á flugi einhvers staðar yfir miðju landinu. Kínverjar hafa viðurkennt að loftbelgurinn sé frá þeim kominn en segja hann vera veðurbelg sem hafi villst af leið sinni vegna óvæntra vinda. Fulltrúi utanríkisráðuneytis Kína sagðist harma það að belgurinn hefði fyrir slysni ratað inn í bandaríska lofthelgi.

Joe Biden Bandaríkjaforseti fékk skýrslu frá fulltrúum varnarmálaráðuneytisins um loftbelginn en hefur farið eftir ráðum þeirra um að skjóta hann ekki niður. Óttast er að ef belgurinn væri skotinn niður úr háloftunum kynni það að valda almannahættu vegna brota úr honum sem myndu hrapa til jarðar. Jafnframt hefur varnarmálaráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að loftbelgurinn geti tæpast aflað neinna upplýsinga sem Kínverjar hafi ekki nú þegar aðgang að með gervitunglum sínum.

Fylkishershöfðinginn Patrick S. Ryder, fjölmiðlafulltrúi varnarmálaráðuneytisins, sagði við blaðamenn að belgurinn væri á ferð langt fyrir ofan flugleiðir áætlanaflugvéla. Hann tók fram að um leið og tekið hefði verið eftir loftbelgnum hafi Bandaríkjastjórn gert ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hann gæti safnað viðkvæmum upplýsingum.

Gagnrýnendur Bidens úr Repúblikanaflokknum, þar á meðal Donald Trump fyrrum Bandaríkjaforseti, hafa kallað eftir því að loftbelgurinn verði skotinn niður.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur slegið fyrirhugaðri heimsókn sinni til Kína á frest vegna atviksins. Áætlað var að hann legði af stað til Beijing í kvöld til að funda með kínverska utanríkisráðherranum Qin Gang og mögulega Xi Jinping forseta Kína.

Loftbelgurinn flaug yfir lofthelgi Kanada áður en hann fór yfir Montana. Stjórn Kanada hefur kallað sendiherra Kínverja á sinn fund vegna málsins.