Héraðs­dómur Reykja­víkur úr­skurðaði í dag karl­mann á þrí­tugs­aldri í fimm daga gæslu­varð­hald í þágu rann­sóknar lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu á al­var­legri líkams­á­rás í mið­bæ Reykja­víkur í nótt en einn er nú í lífs­hættu eftir á­rásina. Að sögn lögreglu miðar rannsókninni vel en maðurinn verður í gæsluvarðhaldi til föstudagsins 18. júní.

Á­rásin var til­kynnt til lög­reglu á öðrum tímanum í nótt en þar hafði ís­lensku maður um tví­tugt verið stunginn í kviðinn fyrir utan veitinga­staðinn Fjall­konuna við Ingólfs­torg. Hann var fluttur á bráða­mót­töku í kjöl­farið og liggur nú þungt haldinn á gjör­gæslu.

Lög­reglan hand­tók meintan á­rásar­mann í heima­húsi í Kópa­vogi í morgun en þar er einnig um að ræða ís­lenskan karl­mann um tví­tugt. Ekki er talið að málið tengist skipu­lagðri brota­starf­semi en verið er að rann­saka hvort mennirnir hafi átt í deilum fyrir á­rásina.

Lagt var hald á hníf í mið­bænum en ekki er vitað hvort það hafi verið vopnið sem var notað við á­rásina. Lög­regla er því enn með það til skoðunar auk þess sem verið er að rannsaka hvort málið tengist bruna í bíl í Kópavogi í nótt.