Guð­rún Jóna Jóns­dóttir, verk­taki fyrir fyrir­tækið Cognisant, er bú­sett í Dan­mörku og hefur verið heima­vinnandi vegna CO­VID-19 núna í 40 vikur.

„40 vikur, heil með­ganga! Èg er búin að vinna heiman frá mér í 40 fríkings vikur! Við búum í rétt rúmri 80 fer­metra íbúð, á þriðju hæð með engum svölum... Fyrir co­vid var ég að vinna frá Osló, Malmø og Kaup­manna­höfn - núna skrif­borðið, eld­hús­borðið og sófinn. Ég er að sjálf­sögðu ekki ein í þessum 80 fer­metrum því Einar Leif er hérna líka;... og allt draslið; það hverfur ekkert þegar við mætum í vinnuna,“ segir Guð­rún Jóna í færslu sem hún birti á Face­book í gær.

Hún segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hennar til­finning sé sú að Danir séu margir orðnir pirraður á sótt­varna­að­gerðum og að mjög mis­jafnt sé hversu mikið fólk fari eftir reglum um, til dæmis, grímu­notkun.

„Danir taka þessu ekki eins al­var­lega finnst mér eins og Ís­lendingar. Skemmtana­lífið er enn virkt til 22 á kvöldin þrátt fyrir aukinn fjölda smita og fólk fer á barinn og drekkur þar og fer svo út í garð og drekkur þar,“ segir Guð­rún Jóna.

Guð­rún er vön að ferðast mikið fyrir sína vinnu og átti þann 18. febrúar á þessu ári að vera að ferðast til Noregs.

„Þá voru búnar að vera fréttir um veiru sem var að koma frá Kína sem væri að breiðast út og þá var okkur gefið það val að hvort við vildum fara í þessar ferðir eða vera heima. Ég vissi svo lítið og fannst allt svo ó­ljóst um veiruna að ég á­kvað að vera heima og vinna í gegnum netið og það var bara síðasta á­kvörðun sem ég tók um það,“ segir Guð­rún Jóna.

Hún segir að margt hafi haft á­hrif á það að hún hafi verið heima allan þennan tíma. Það hafi verið sett „lock­down“ á einum tíma­punkti, svo hafi verið ferða­bann. Þá hafi komið upp smit á skrif­stofunni og þá hafi ekki mátt fara þangað.

En svo er Guðrún Jóna, eins og svo margir aðrir, ekki ein heima hjá sér því Einar Leif, maðurinn hennar, hefur aðeins á þessu sama tímabili fengið að fara tvisvar á skrif­stofuna sína í tvær vikur, en annars hafi þau verið saman í 80 fer­metra í­búðinni þeirra.

„Það er bara ó­trú­legt að við séum enn saman,“ segir Guð­rún Jóna og hlær.

Skilin á milli heimilis og vinnu óljós

Hún segir að það sem hafi lík­lega bjargað henni frá því að skríða upp í rúm heima sé hversu mikið er búið að vera að gera hjá henni. Það hafi þó valdið henni tals­verðri streitu og á einum tíma­punkti hafi hún verið á stað sem hafi valdið henni hræðslu um fram­haldið.

„Þegar þú ert í vinnunni og það er mikið að gera, þá ertu um­vafin fólki sem hefur líka mikið að gera en þegar þú ert heima og það er mikið að gera þá verða brýr á milli vinnu og heimilis engar og streitan færist yfir á heimilis­lífið. Það hefur or­sakað mikið stress,“ segir Guð­rún Jóna.

Það hefur mikið verið talað um þegar fólk er lengi í heima­vinnu að það gleymi að fara úr vinnunni. Hefur þú upp­lifað það?

„Ég hef upp­lifað það mjög sterkt og ég hef á­hyggjur af því. Per­sónu­lega þá hef ég oft farið langt yfir þessi mörk sem eiga að skilja að fjöl­skyldu og vinnu þar sem ég tek tíma af þeim í­trekað út af því að það er svo mikið að gera. Í kringum páskana missti ég stjórn á því og var hrein­lega alltaf að vinna. Ég náði sem betur að kúpla mig út úr því en það hefði getað farið verr,“ segir Guð­rún Jóna.

Spurð hvernig hún hafi náð sér út úr þessum vítahring segir hún að hún muni sterkt eftir því að hafa verið í far­tölvunni og maðurinn hennar hafi spurt hana að ein­hverju mjög hvers­dags­legu eins og hvort hún hafi keypt klósett­pappír og þá missti hún alveg stjórn á skapi sínu.

„Þá áttaði ég mig á því að þetta væri orðið vanda­mál og ég væri komin á ein­hvern stað sem væri ekki sniðugur. Ég fór þá að tala um þetta opin­skátt í vinnunni og við vini mína um að ég væri orðin smeyk um ástandið á mér,“ segir Guð­rún Jóna.

Hún segir að sem betur fer hafi hún stuttu seinna komist í sumar­frí og þau hafi þá farið saman til Ís­lands og verið í sveitinni þar sem ekki var síma­sam­band í tíu daga. Það hafi hjálpað mikið.

Mikilvægt að taka sér pásu

Hún segir að hún hafi þó lært á þessum tíma hversu mikil­vægt það er að gefa sjálfum sér rými fyrir pásu og til að anda.

„Ég leyfi mér að fá mér kaffi og kannski bara hringja í mömmu mína eða tala við kærastann,“ segir Guð­rún Jóna og bætir við:

„Ég er svo þakk­lát að það varð ekki meira eða al­var­legra. En svo minni ég mig líka á að þetta er ekki það al­var­legt. Það eru margir í verri stöðu sem misstu vinnuna, hafa ekki getað unnið í margar vikur og svo þau sem þekkja ein­hvern sem hafi veikst eða jafnvel veikst sjálf.“

Spurð hvort hún hafi ein­hver ráð til fólks sem er í fjar­vinnu segir hún að hún mæli sterk­lega með því að stunda hug­leiðslu eins oft og fólk getur.

„Ef þú átt til dæmis „noise cancelling“ heyrnar­tól taktu þér þá smá tíma og kúplaðu þig út eins mikið og þú getur. Þótt þú sért læstur inni í 80 fer­metra íbúð,“ segir Guð­rún Jóna.

Þá segir hún að hún og maðurinn hennar hafi alltaf skipts á að svæfa barnið þeirra og passað að hitt nýti tímann í að fara út, að ganga, hlaupa eða hrein­lega bara til að sjá annað fólk.

„Bara að fara út og anda og sjá annað fólk þótt maður sé ekki enda­laust í nánum sam­skiptum,“ segir Guð­rún Jóna.