Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 15. júlí 2022
23.00 GMT

Sonja hefur alla tíð stundað íþróttir og haldið sér í góðu formi.

„Mér finnst gaman að gera erfiða hluti og ég byrjaði að stunda þríþraut í september árið 2020. Þetta varð að ástríðu og ég æfði eins og vitleysingur,“ segir Sonja, sem æfði frá einum og upp í þrjá klukkutíma á dag, alla daga vikunnar.

„Það var helst til mikið þar sem ég var að byrja í íþróttinni en þar sem líkamsræktarstöðvar og sundlaugar voru mikið lokaðar á þessum tíma æfði ég mikið ein og svo með kærastanum mínum, Jóa, og Sædísi vinkonu minni. Þetta var svona „suffer fest“ og ég elskaði það.“

Í október skráði þríeykið sig í hálfan járnkarl sem var á dagskrá í júní árið eftir í Danmörku.

„Þá varð ég algjörlega heltekin. Þótt jólin kæmu sló ég ekkert af, hljóp mikið úti og stundaði sund í Nauthólsvík.“

Fyrir þá sem ekki þekkja til þá gengur keppni í hálfum Járnkarli út á að synda fyrst 1,9 kílómetra, hjóla svo 90 kílómetra og ljúka keppni með hálfu maraþoni.

Bruddi verkjatöflur


Á aðfangadag var Sonja farin að finna fyrir aukinni þreytu og þrota í kringum magann.

„Ég var ólík sjálfri mér en hélt samt áfram að æfa. Ég tróð bara í mig paratabs en aðfaranótt jóladags gat ég lítið sofið vegna verkja í baki. Ég hélt ég hefði bara meiðst eitthvað í bakinu á æfingu og hélt áfram að bryðja verkjatöflur og bólgueyðandi en var jafnframt orðin mjög slöpp.“


„Ég hélt ég hefði bara meiðst eitthvað í bakinu á æfingu og hélt áfram að bryðja verkjatöflur og bólgueyðandi en var jafnframt orðin mjög slöpp.“


Á öðrum degi jóla var Sonja orðin rúmliggjandi með háan hita, stöðugt versnandi bakverki og mikla ógleði.

„Ég hafði aldrei orðið svona veik og var alls ekki að nenna þessu, ég þurfti að sleppa æfingu þann dag og lá bara undir sæng.“

Þá nótt svaf Sonja lítið sem ekkert enda skalf hún úr kulda, sá ofsjónir og svitnaði þannig að skipta þurfti tvisvar á rúminu.

„Þarna hefði ég átt að kveikja á að eitthvað mikið væri að en ég var alltaf að bíða eftir að verða betri.“

Jói, sambýlismaður Sonju, var á leið norður til að verja áramótunum með fjölskyldu sinni og Sonja, sem var ákveðin í að hrista af sér veikindin, ók honum á Reykjavíkurflugvöll.

„Þegar ég kom heim hrakaði mér hratt, ég kastaði upp og það leið yfir mig. Ég hringdi í mömmu sem kom með bæði þvagfærasýkingarpróf og óléttupróf. Ég man að ég hugsaði að ef svona væri að vera ólétt þá ætlaði ég aldrei að taka þátt í slíku. Sársaukinn í bakinu var orðinn óbærilegur.“


„Þegar ég kom heim hrakaði mér hratt, ég kastaði upp og það leið yfir mig. Ég hringdi í mömmu sem kom með bæði þvagfærasýkingarpróf og óléttupróf."


Sonja segir að fjólublár kassi á þvagfærasýkingarprófi segi að um sýkingu sé að ræða en hennar próf hafi sýnt svartan kassa.

„Mamma hringdi þá á læknavaktina. Þar sem ég treysti mér ekki þangað sögðust þau ætla að koma til mín eftir klukkan fimm.“

Í öndunarvél stuttu eftir komu


Nokkrum mínútum síðar bað hún þó föður sinn að hringja eftir sjúkrabíl.

„Ég var flutt á bráðamóttöku þar sem ég var fljótt færð inn í bráðaherbergi þar sem alltaf voru um fimm manns yfir mér. Mér var svo tilkynnt að það ætti að færa mig á gjörgæslu.“

Sonja áttaði sig engan veginn á alvarleikanum sem því fylgir að vera lagður inn á gjörgæslu og þar sem hún var ein á sjúkrahúsinu vegna Covid-takmarkana, sendi hún kærastanum Messenger-skilaboð: „Það er verið að færa mig á gjörgæslu.“

Síðan heyrði hann ekki meir enda var Sonja sett í öndunarvél stuttu eftir komuna þangað og komst ekki aftur til meðvitundar fyrr en níu dögum síðar.

Allt kerfið var að krassa


Sonja greindist með sýklasótt sem sýkt hafði allt þvagkerfi hennar og nýru. Í kjölfar sýklasóttarinnar fékk hún brátt andnauðarheilkenni og var því sett í öndunarvél. Ásamt því fékk hún hjartabilun í kjölfar hjartabólgu og nýrnabilun vegna sýklasóttarlostsins. Hækkun á lifrarprófum benti einnig til að lifrin hefði orðið fyrir skaða.

„Eftir þetta man ég ekki neitt. Ég var sett í öndunarvél nánast um leið og ég kom á deildina enda var allt kerfið að krassa og ekki víst að hjartað myndi halda út nóttina.

Það var í raun kraftaverk að ég skyldi lifa þetta af enda skilst mér að fyrstu þrjá dagana hafi ég verið nær því að deyja en lifa þetta af. CRP-gildi mín, sem mæla hversu mikil sýkingin er, voru komin upp í 725 en eðlilegt er að þau séu þrír til fimm.“

Sonja man ekkert eftir þeim níu dögum sem hún var tengd við öndunarvél. Mynd/aðsend

Samkvæmt útskriftarbréfi fékk Sonja fjöllífærakerfabilun ásamt sýklasóttarlosti með bráðu andnauðarheilkenni en allt er þetta lífshættulegt. Á þessum tíma var aðeins ein heimsókn leyfð á dag – í klukkutíma í senn.

„En guð blessi starfsfólk gjörgæslunnar sem var ekki alveg strangt á þessu þar sem ég var eini sjúklingurinn á gjörgæslu.“


Dramatískt gamlárskvöld


Sambýlismaður Sonju situr skammt undan meðan á spjalli okkar stendur og því ekki úr vegi að spyrja hvernig honum hafi orðið við þegar honum bárust skilaboðin um að unnustan væri á leið á gjörgæslu.

„Hún var nokkuð góð þegar hún skutlaði mér á flugvöllinn en svo vissi ég ekkert fyrr en hún sendi mér skilaboð um að hún væri komin upp á spítala og svo að hún væri á leið á gjörgæslu. Það var svo þegar ég hringdi í pabba hennar sem hann sagði mér að hún væri í lífshættu. Þetta liti bara ekki vel út,“ segir hann sem var fljótur að taka næstu flugvél heim frá Akureyri.

Tilraun var gerð til að taka Sonju úr öndunarvél á gamlársdag og var það mikið fagnaðarefni fyrir aðstandendur og Jói hlakkaði mikið til að verja kvöldinu hjá henni uppi á spítala.

Því miður gekk það ekki sem skyldi og Sonja var aftur tengd við öndunarvél nokkrum klukkustundum síðar. Hún man ekki eftir þessum degi þótt hún hafi eitthvað komið til meðvitundar en áfallið var mikið fyrir fjölskylduna sem hafði eðlilega fagnað því að nýtt ár gengi í garð með Sonju á sýnilegum batavegi.

Jói viðurkennir að gamlárskvöld 2020 hafi tekið á þar sem hann sat við hlið kærustu sinnar sem var aftur komin í öndunarvél og án meðvitundar.

„Ég sat hjá henni frá um klukkan níu til klukkan þrjú um nóttina,“ segir hann og kann, rétt eins og Sonja sjálf, starfsfólki gjörgæslu miklar þakkir fyrir gott viðmót á erfiðum tímum.


Ringluð og hrædd


Misjafnar sögur fara af reynslu sjúklinga sem þurfa aðstoð öndunarvélar og upplifa sumir hverjir vanlíðan og martraðir. Sonja segist sem betur fer hafa algjörlega sloppið við slíkt og muna ekki eftir dögunum níu. Jói lýsir því aftur á móti hvernig starfsfólk hafi alltaf talað við hana eins og hún heyrði og oftar en ekki hafi hún sýnt viðbrögð.

„Eitt sinn sagði hjúkrunarfræðingurinn þér að mamma þín hefði hringt og beðið hana að skila til þín að hún elskaði þig. Þá láku hjá þér tár.“

Sonja á engar slíkar minningar.

„Mér finnst svo gaman að heyra hlið fólksins míns sem var hinum megin við öndunarvélina, því ég man ekkert frá þeim tíma.“


En þó svo hún muni ekkert hafði tíminn áhrif á líðan hennar andlega og er hún enn að vinna úr afleiðingunum. Hún man skýrt tilfinninguna þegar hún er tekin úr öndunarvélinni á níunda degi.

„Það er tilfinning sem ég myndi helst vilja gleyma,“ segir hún ákveðin. „Ég rankaði við mér þegar einhver reyndi að útskýra fyrir mér hvað væri um að vera. Ég fann að verið var að draga rör upp úr mér og upplifði að ég gæti ekki andað. Ég var mjög ringluð og hrædd.“


„Ég rankaði við mér þegar einhver reyndi að útskýra fyrir mér hvað væri um að vera. Ég fann að verið var að draga rör upp úr mér og upplifði að ég gæti ekki andað. Ég var mjög ringluð og hrædd.“


Á meðan á sjúkrahúsdvöl Sonju stóð var heimsóknartími fjölskyldu mjög takmarkaður vegna Covid. Mynd/aðsend

Gat ekki talað í fyrstu


„Ég var mjög aum eftir öndunarvélina og gat ekki talað í fyrstu. Ég fékk þá töflu til að skrifa á en var svo máttfarin að ég gat varla skrifað. Ég gat ekki spennt einn einasta vöðva og ekki setið upprétt. Það tók bara á að anda og mér var mjög óglatt enda á miklum sýklalyfjum.

Ég fékk að hitta Jóa og man að ég var með áhyggjur af því að hann mætti ekki sjá mig svona ljóta. Hjúkrunarfræðingarnir þvoðu því á mér hárið og reyndu að gera mig fína,“ segir Sonja og hlær enda áttaði hún sig þá ekki á því að hann hefði setið við hlið hennar í öndunarvél í níu daga.

Af gjörgæslu var Sonja færð á smitsjúkdóma- og lyflækningadeild þar sem engar heimsóknir voru leyfðar og hún ein á stofu.

„Ég var alveg pínulítil í mér og brotin, ein inni í herbergi,“ segir Sonja sem var þarna rétt að átta sig á því hvað hefði gengið á.

„Ég gat enn ekki staðið og leið mjög illa. Það var ekkert inni í herberginu nema pínulítið sjónvarp með fáum stöðvum og ég gat ekkert lesið. Þegar kom að þrettándanum og ég sá flugeldana út um gluggann brotnaði ég saman. Það að vera ein þarna var erfiðara en allt hitt.“


„Ég gat enn ekki staðið og leið mjög illa. Það var ekkert inni í herberginu nema pínulítið sjónvarp með fáum stöðvum og ég gat ekkert lesið."


Hörkutólið tók í taumana


Sonja lá á deildinni í þrjár nætur.

„Hörkutólið tók svo í taumana og ég neyddi mig til að standa upp aftur og aftur þótt ég dytti alltaf niður og svo fékk ég göngugrind og notaðist við hana.“

Á þriðja degi náði Sonja að standa upp sjálf og hringdi í móður sína fyrir klukkan sjö um morguninn.

„Ég sagði henni að ég væri tilbúin að koma heim og bað hana að sækja mig.“

Móðir hennar var eðlilega undrandi en kom um hæl.

„Ég tók saman dótið mitt og haltraði út ganginn þar sem stofan mín var innst og beið svo eftir mömmu niðri.“

Sonja var á batavegi og komin af sýklalyfjunum og því var útskrift nálæg en hún flýtti henni aðeins.

„Þegar við fórum á fund með læknunum hélt ég fast í Jóa og bað hann að leyfa þeim ekki að taka mig. Mér leið bara eins og ég væri í fangelsi þó svo að starfsfólkið væri yndislegt – ég þurfti bara að fara heim til mín.“

Sonja upplifði óbærilega verki í baki, slappleika og mikinn hita en hélt að hún myndi jafna sig á nokkrum dögum. Þegar hún loks kom á bráðamóttöku var hún svo hætt komin að hún var nánast undir eins tengd við öndunarvél. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Sonja fékk ströng fyrirmæli um að slaka á.

„Það var lítið eftir af mér enda þurfti ég að neyða ofan í mig næringu. Ég gat ekki gengið upp stiga og fyrsti göngutúrinn út götuna endaði á að ég komst ekki aftur til baka heim.“


Sagt að gleyma því að keppa


Þótt Sonja hafi reynt að fylgja fyrirmælum um slökun var hún ákveðin í að ná upp fyrri styrk.


„Ég var ákveðin í að þetta ætti ekki að hafa áhrif á mig til framtíðar – þetta átti ekki að sigra mig. Læknarnir sögðu að líklega myndi það taka mig heilt ár að ná mér upp í 60 prósent af fyrri getu.

Það fyrsta sem ég man eftir að hafa heyrt frá heilbrigðisstarfsmanni þegar ég kom úr öndunarvélinni var: „Systir þín sagði að þú værir að fara að keppa í þríþraut í sumar. Þú getur gleymt því strax, því miður er það ekki að fara að gerast.“


„Ég var ákveðin í að þetta ætti ekki að hafa áhrif á mig til framtíðar – þetta átti ekki að sigra mig."


Á þeim tímapunkti gat Sonja ekki einu sinni setið upprétt og reyndi því lítið að véfengja þau orð en með auknum styrk kom þrjóskan upp.

„Líkaminn gat ekki neitt en hausinn gat alltaf meira. Líkaminn fékk því ekki að ráða og þrjóskan kom mér áfram.“

Henni var ráðlagt að byrja á stuttum göngutúrum.

„Ég fór í hálftíma göngutúra fyrstu vikuna og lengdi þá svo í klukkutíma og svo tvo klukkutíma göngutúra á dag. Ég var alltaf að færa mörkin framar þó ég væri gjörsamlega að bugast. Sjálfsmynd mín er svo tengd hreyfingu og því að vera í góðu formi og þetta var bara ekki ég, en þetta var þó stór brekka og ég var alltaf mjög þreytt.“


Hrædd um að drepa mig


Sonja segir stóran part af uppbyggingarferli sínu hafa verið að fylgjast með afreksíþróttamanninum James Lawrance sem kallar sig Iron Cowboy.

„Ég þakka honum mikið að ég hafi harkað þetta af mér,“ segir Sonja, sem dag hvern fylgdist með áskorun James um að klára heilan Járnkarl á dag í 100 daga í röð.

„Á hverjum einasta morgni horfði ég á hann. Einhvern veginn liðu dagarnir svona, tvö skref áfram og eitt og hálft til baka. Ég grét á öllum æfingum og eftir tvo og hálfan mánuð fór óttinn að stoppa mig því ég var bara svo hrædd um að drepa mig. Þá var gott að hafa fólkið mitt til að minna mig á að ég væri komin yfir stærsta hjallann og væri ekki að fara að deyja. Þetta voru lítil skref og ég komst alltaf lengra.“


„Ég grét á öllum æfingum og eftir tvo og hálfan mánuð fór óttinn að stoppa mig því ég var bara svo hrædd um að drepa mig."


Sonja var nýfarin að æfa þríþraut sem er sund, hlaup og hjólreiðar þegar hún veiktist svo alvarlega að henni var vart hugað líf. Mynd/aðsend

Þríþrautin sem Sonja hafði stefnt á, í júní 2021, var komin á hilluna og planið var að fara með kærastanum og vinkonunni út og fylgjast með af hliðarlínunni. Í apríl fór Sonja þó í þolpróf á Landspítanum þar sem kom í ljós að batinn var framar vonum.


Sama þó að hún skriði í mark

„Það var alveg smá kraftaverk. Læknarnir höfðu talað um að ég gæti náð 60 prósent árangri á einu ári en þarna eftir þrjá mánuði var ég komin í 90 prósent.

Þegar ég heyrði þetta hugsaði ég með mér að ég gæti keppt. Ég hugsaði: Ég er kraftaverk! Ég get þetta! Fyrst ég lifði þetta af get ég komið mér aftur í form. Og ef ég kem mér aftur í form get ég keppt – þótt ég komi skríðandi í mark. Ég hefði aldrei getað farið og horft af hliðarlínunni, það er bara ekki ég. Persónuleiki þinn ákveður alltaf fyrir rest.“


„Ég hefði aldrei getað farið og horft af hliðarlínunni, það er bara ekki ég. Persónuleiki þinn ákveður alltaf fyrir rest.“


Sonja sagði bara kærastanum og vinkonunni að hún ætlaði að taka þátt.

„Aðrir héldu að ég ætlaði bara með út. Ég sagði svo pabba rétt áður en við fórum en tók af honum loforð um að segja ekki mömmu né Erlu, tvíburasystur minni, sem er í læknisfræðinámi í Litáen.“

Þegar hópurinn var kominn út sagði faðir Sonju þeim frá því að hún ætlaði að keppa.

„Ég held að þrátt fyrir allt hafi þetta ekki komið mömmu og Erlu systur á óvart.“


Kom grátandi í mark


Keppnin gekk vonum framar að sögn Sonju.

„Áður en ég dó næstum því hafði ég sett mér markmið um að klára þetta á sex klukkutímum, slík plön fóru öll út af borðinu og lokamarkmiðið var bara að klára. En svo kláraði ég þetta á sex klukkutímum og átján mínútum og það var allt í lagi með mig.“ Sonja segir tilfinninguna að koma í mark hafa verið ólýsanlega. „Ég var byrjuð að gráta löngu áður en ég kom að markinu.“


„Ég var byrjuð að gráta löngu áður en ég kom að markinu.“


Eftir veikindin segist Sonja hafa grátið á öllum æfingum en hún var staðráðin í að ná upp fyrri styrk og segir hausinn alltaf hafa getað meira en líkamann. Mynd/aðsend

Spurð um langtímaáhrifin segir Sonja veikindin hafa breytt hugsunarhætti hennar 100 prósent.

„Fljótlega fór ég að gera mér grein fyrir því hvað þetta var mikið tækifæri. Í dag er ég þakklát fyrir að þetta gerðist – því þetta breytti mér.

Þótt það sé dramatískt og klisju­kennt þá fór ég að halda utan um allt sem ég var þakklát fyrir, alla þessa litlu hluti. Maður heldur að maður sé ódauðlegur, að heilsan sé sjálfsögð, en eftir þessa reynslu er ég þakklát fyrir að vera á lífi og geta farið út að hlaupa. Ég opnaði augun fyrir því hversu stutt lífið er og fór að gera hluti sem mig hafði alltaf langað en ekki þorað.

Ég er útskrifaður lögfræðingur og ætlaði að láta það duga en skráði mig í meira nám og er núna í fjarnámi í stjórnun og forystu við Háskólann á Bifröst. Ég fór að stökkva á fleiri hluti og sendi til að mynda James skilaboð sem hann svaraði og nú er ég að skipuleggja viðburð í Hörpu með honum.“

Saga Sonju snerti James á svipaðan hátt og hans ferli hafði haft áhrif á hana.

„Hann brennur fyrir því að hafa áhrif á annað fólk og mín saga hafði mikil áhrif á hann svo hann stakk upp á að koma hingað og vera með viðburð. Ég sagði bara: Já, án þess að vita neitt hvað ég er að gera,“ segir Sonja en kúrekinn mun halda fyrirlestur í Kaldalóni í byrjun ágúst.


Tvíburasystur sigruðu dauðann


Veikindi Sonju eru sannarlega ekki fyrsta áfallið sem dynur á fjölskyldunni en fyrir fjórum árum greindist Erla, tvíburasystir hennar, með eitlakrabbamein á fjórða stigi.

„Hún var sjálf næstum dáin þarna 21 árs gömul en eftir mína reynslu skil ég hana betur og við náum enn betur saman.

Við erum tvíeggja og svart og hvítt og meira að segja það hvernig við deyjum næstum því er gjörsamlega ólíkt. Hún var í lyfjameðferð í átta mánuði, sem hún lýsir svipað og sama svæðið sé klórað lengi en ég er sett bara beint í öndunarvél í níu daga sem líkist því meira að fá hníf beint í hjartað. Við erum það ólíkar,“ segir Sonja í léttum tón í lokin.

Athugasemdir