Her­toginn af Edin­borg, Filip prins, verður borinn til grafar í dag. Vegna sótt­varnar­ráð­stafana verða einungis þrjá­tíu manns við­staddir lág­stemmda at­höfn. Hægt er að fylgjast með at­höfninni í beinni hér að neðan í útsendingu Globe and mail.

730 her­menn taka þátt í at­höfn Filippusi til heiðurs víðs­vegar um landið. Jarðar­förin sjálf fer fram í St. Georgs kapellu og mun hefjast eftir mínútu­þögn bresku þjóðarinnar klukkan 14:00 að ís­lenskum tíma.

Í um­fjöllun Guar­dian kemur fram að at­höfnin muni endur­spegla ævi Filippusar og störf hans fyrir bresku konungs­fjöl­skylduna og breska sjó­herinn.

Dag­skráin í dag:

Kl. 13:40 verður kista Filippusar flutt frá aðal­inn­gangi Windsor kastala og komið fyrir á sér­hönnuðum Land Rover-jeppa her­togans.

Kl. 13:45 leggur lík­fylgd af stað með hljóm­sveit líf­varða­sveita krúnunnar í farar­broddi. Karl Breta­prins og fjöl­skylda hans mun ganga fyrir aftan kistu her­togans á­samt starfs­fólki hans.

Kl. 13:53 kemur jeppinn að vestari þrepum kapellunnar. Þar munu heiðurs­vörður og hljóm­sveit riffla­her­deildar breska hersins spila breska þjóð­sönginn meðan kistan er flutt inn í kapelluna.

Kl. 14:00 verður mínútu­þögn um allt Bret­land. Einungis konungs­fjöl­skyldan og nánustu verða inn í kapellunni. At­höfnin hefst. Filipppus verður borinn til grafar í graf­hvelfingu fjöl­skyldunnar eftir at­höfnina þar sem faðir Elísa­betar, Georg 6. og aðrir konungar eru einnig grafnir.