Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hefur boðað til blaða­manna­fundar klukkan 14 í dag þar sem farið verður yfir rannsóknina á mann­drápinu í Rauða­gerði í síðasta mánuði en hægt er að horfa á fundinn í beinni útsendingu hér fyrir neðan.

Halla Berg­þóra Björns­dóttir lög­reglu­stjóri á höfuð­borgar­svæðinu, Margeir Sveins­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá mið­lægri rann­sóknar­deild, og Hulda Elsa Björg­vins­dóttir, sviðs­stjóri á­kæru­sviðs, verða á fundinum og fara þar yfir málið.

Lögreglan hefur haft málið til rannsóknar í rúman mánuð en lögregla var kölluð að húsi í Rauðagerði aðfaranótt sunnudagsins 14. febrúar þar sem tilkynnt var um slasaðan mann á fertugsaldri. Síðar kom í ljós að um manndráp hafi verið að ræða.

Armando Beqirai var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði en hann var skotinn níu sinnum í höfuðið og bol með skammbyssu. Á annan tug einstaklinga hafa verið með réttarstöðu sakbornings og hafa margir verið handteknir vegna málsins.

Meintur skotárásarmaður, albanskur karlmaður á fimmtugsaldri, hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því í síðasta mánuði en hann var úrskurðaður í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald þann 17. mars.

Margeir greindi frá því í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku að lögregla telji sig hafa fundið byssuna sem Armando var skotinn með en þau höfðu lagt hald á byssuna fyrir nokkru síðan.

Fjölmargir eru nú í farbanni en óljóst er hversu margir eru enn í gæsluvarðhaldi, fyrir utan hinn meinta skotárásarmann. Gera má ráð fyrir að farið verði frekar yfir stöðuna á fundinum.