Joe Biden Bandaríkjaforseti og Dr. Jill Biden forsetafrú heimsækja í dag borgina Uvalde í Texas þar sem nítján grunnskólabörn voru myrt ásamt tveimur kennurum í hryðjuverkaárás 24. maí síðastliðinn.

Þau hafa þegar sótt minningarathöfn við Robb grunnskólann og eru nú í messu í Sacred Heart kaþólsku kirkjunni og munu síðar í dag hitta aðstandendur hinna látnu og börnin sem komust lífs af og fjölskyldur þeirra. Sömuleiðis munu forsetahjónin hitta viðbragðsaðila sem hafa hlúð að hinum særðu.

Dr. Jill Biden fylgir eiginmanni sínum til Uvalde.
Fréttablaðið/Getty images

Foreldrar grafa börnin sín

„Ég ætla að fara til Uvalde í Texas til að tala við fjölskyldurnar. Á meðan ég tala við ykkur hér eru foreldrar að undirbúa útfarir barna sinna. Í Bandaríkjunum þurfa foreldrar að grafa börnin sín. Við búum við of mikið ofbeldi, of mikinn ótta, of mikla sorg,“ sagði Joe Biden við háskólanemendur í Delaware við útskriftarathöfn í gær.

Biden missti eiginkonu sína Neilia og eins árs dóttur sína Naomi í umferðarslysi árið 1972. Hann missti annað barnið sitt árið 2015, Beau Biden sem lést úr heilakrabbameini. Forsetinn hefur áður sagt að hann liti á það sem sína skyldu að veita fjölskyldum sem hafa upplifað áföll huggun.

„Að missa barn er eins og að rifna í sundur. Það er algjör tómleiki í hjartanu og þér líður eins og tómið sé að gleypa þig. Það er engin leið til að sleppa, það er svo kæfandi tilfinning. Og maður verður aldrei samur,“ sagði Biden kvöldið eftir skotárásina í Uvalde.

Skrímslavæðing og byssuofbeldi

Byssuofbeldi jókst í Bandaríkjunum í heimsfaraldrinum og eru Bandaríkin eina landið í heiminum þar sem byssur í eigu almennra borgara eru fleiri en borgararnir sjálfir. Víða hafa atburðir líkt og skotárásin í Texas orðið til þess að vopnalög eru hert.

Umræður um hertar reglugerðir um skotvopn fara alltaf af stað eftir árásir í skólum í Bandaríkjunum en lítið er gert til að breyta lögum vegna áhrifa lobbýista á borð við Skotvopnasamtök Bandaríkjanna (e. National Rifle Association - NRA). Sömuleiðis hefur verið ákveðin skrímslavæðing í fréttum vestanhafs.

„Illskan kom til Uvalde,“ sagði Joe Biden við fyrrnefna útskriftarathöfn. Svo virðist sem umræða um geðraskanir fari einnig af stað þegar rætt er um hertari reglugerðir. Sömu aðilar, félagsmenn NRA, hafa lítinn áhuga á að bæta heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með geðraskanir þegar það tengist ekki skotárásum.