Með því að rjúfa rafstraum til byggingar höfuðstöðva Hyundai Europe í Þýskalandi í eina klukkustund sparaðist raforka sem nægt hefði til að knýja rafmótor borgarsportjeppans KONA um fjögur þúsund kílómetra leið frá Madríd til Moskvu. Það er einmitt það sem gert var í skrifstofubyggingunni í Offenbach laugardaginn 24. mars þegar fyrirtækið tók þátt í Jarðarstund (Earth Hour), árlegum og alþjóðlegum viðburði sem haldinn er um allan heim að tilstuðlan World Wildlife Fund. 

Markmið Jarðarstundar er að vekja athygli á loftslagsbreytingum jarðar og í tilefni dagsins er venjan að slökkva öll ljós í þekktum mannvirkjum víða um heim. Í mörgum tilfellum taka sveitarfélög og ríki, samtök, fyrirtæki og stofnanir þátt og algengt er að staðið sé fyrir órafmögnuðum viðburðum sem vekja fólk til umhugsunar um þau þægindi sem nútímasamfélög heimsins hafa í för með sér og sem um leið geta einnig haft neikvæð áhrif á umhverfið. Þau geta t.d. verið í formi orkusóunar og aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda.

Hyundai Motor hefur stutt við starfsemi World Wildlife Fund undanfarin fimm ár í samræmi við sífellt aukna áherslu á umhverfismál hjá fyrirtækinu. Sú stefna birtist m.a. í miklum þunga í þróun og framleiðslu umhverfismildari ökutækja, svo sem 100% rafbíla, tengiltvinnbíla, tvinnbíla og rafknúinna vetnisbíla. Meðal slíkra bíla eru IONIQ, en kaupendur geta valið um þrjár mismunandi tegundir orkugjafa bílsins í samræmi við aðstæður á hverju markaðssvæði fyrir sig. IONIQ er hægt að fá sem tvinnbíl, 100% rafbíl og tengiltvinnbíl og býður Hyundai í Garðabæ síðasttöldu tvær útfærslur bílsins. 

Einnig má nefna borgarsportjeppann KONA sem kominn er á helstu markaði á meginlandi Evrópu í 100% rafútfærslu auk rafknúna vetnisbílsins NEXO sem einnig er kominn á markað á meginlandinu. Von er á báðum þessum rafbílum til Hyundai í Garðabæ í haust. Að sögn Thomasar A. Schmid, rekstrarstjóra Evrópustöðva Hyundai í Þýskalandi, hefur fyrirtækið sett sér það markmið að árið 2021 verði 60% nýrra fólksbíla frá Hyundai með grænan orkugjafa á borð við einhvern þeirra sem nefndir voru hér að ofan.