Hyundai sýndi Vision FK í nokkurs konar dulargervi á sérstakri vetnisráðstefnu á sýningunni. Var bíllinn kynntur sem væntanlegur framleiðslubíll svo greinilegt er að Hyundai er alvara með þessum bíl. Hyundai hefur sagst ætla að leggja áherslu á vetni og að það muni leika stórt hlutverk í áætlunum þeirra næstu tvo áratugi og rafvæðingu bílaf lota þeirra. Vision FK er 670 hestafla bíll með 600 km drægni svo að þarna eru alvöru tölur á ferðinni. Bíllinn er hannaður í samstarfi við ofurbílaframleiðandann Rimac sem Hyundai á 12 prósent í. Efnarafallinn í bílnum er þróaður af Hyundai, en til viðbótar við hann er stór rafhlaða svo um nokkurs konar tvinnbíl er að ræða.

Er þetta í fyrsta skipti sem bíll er smíðaður með þessum hætti, en það að koma fyrir bæði efnarafal og stórri rafhlöðu er ekkert einfalt mál og þá sérstaklega ekki í sportbíl eins og þessum. Bíllinn verður svipaður að stærð og BMW 3-lína og gæti verið kominn í sölu fyrir lok áratugarins, en þá áætlar Hyundai að vetnisbílar nái að vera á pari við rafbíla í framleiðslukostnaði.