Eins og sjá má af myndinni er útlitið allt mun ákveðnara á Kona N, með breiðari stuðara, nýju grilli með fleiri loftinntökum og nýjum hliðarhlífum. Að aftan er það tvöfalt pústkerfi sem aðgreinir hann frá öðrum Kona ásamt vindskeið sem skipt er í miðju með hástæðu, þríhyrningslaga bremsuljósi. Rauðar línur eru líka áberandi á neðri hluta bílsins.

Bíllinn er lægri en hefðbundin Kona enda með lægri fjöðrun ásamt stærri bremsudiskum. Sem annan búnað má nefna tregðulæsingu, spyrnustýringu og Pirelli götudekk. Aðeins verður hægt að fá bílinn með átta þrepa sjálfskiptingu þegar hann kemur á markað. Hestaflatölur hafa ekki verið gefnar upp enn þá, en vélin í i30 N er 247 hestöfl og getur verið allt að 271 hestafl í sumum útgáfum. Að sögn Ragnars Steins Sigþórssonar hjá Hyundai á Íslandi hefur ekki verið ákveðið hvort að Kona N komi til landsins, en verður það þó að teljast ólíklegt eins og er.