Yfir­völd í Ástralíu hafa til­kynnt að búið sé að finna lítið en stór­hættu­legt hylki sem féll af vöru­bíl í ó­byggðum vestur­hluta Ástralíu á dögunum. Hylkið inni­heldur geisla­virka efnið sesíum-137.

Um­fangs­mikil leit hefur staðið yfir síðustu daga en verið var að flytja það um það bil 1.400 kíló­metra leið þegar það týndist. Stór­fyrir­tækið Rio Tin­to, sem rekur meðal annars námu­vinnslu í Ástralíu, baðst af­sökunar á að hylkið hafi glatast en efnið sem um ræðir er meðal annars notað í námu­vinnslu.

Sesíum-137 er hættu­legt og getur það valdið al­var­legum bruna­sárum hjá þeim sem komast í námunda við það. Eins og önnur geisla­virk efni getur það einnig valdið al­var­legum veikindum, svo sem krabba­meini.

Hylkið er agnar­smátt, eða að­eins sex milli­metrar í þver­mál og átta milli­metrar á hæð, og var strax ljóst að erfitt yrði að finna það. Það tókst að lokum en við leitina var meðal annars notaður sér­stakur búnaður sem nemur geisla­virkni.

Hér sést hversu lítið hylkið er.