Yfirvöld í Ástralíu hafa tilkynnt að búið sé að finna lítið en stórhættulegt hylki sem féll af vörubíl í óbyggðum vesturhluta Ástralíu á dögunum. Hylkið inniheldur geislavirka efnið sesíum-137.
Umfangsmikil leit hefur staðið yfir síðustu daga en verið var að flytja það um það bil 1.400 kílómetra leið þegar það týndist. Stórfyrirtækið Rio Tinto, sem rekur meðal annars námuvinnslu í Ástralíu, baðst afsökunar á að hylkið hafi glatast en efnið sem um ræðir er meðal annars notað í námuvinnslu.
Sesíum-137 er hættulegt og getur það valdið alvarlegum brunasárum hjá þeim sem komast í námunda við það. Eins og önnur geislavirk efni getur það einnig valdið alvarlegum veikindum, svo sem krabbameini.
Hylkið er agnarsmátt, eða aðeins sex millimetrar í þvermál og átta millimetrar á hæð, og var strax ljóst að erfitt yrði að finna það. Það tókst að lokum en við leitina var meðal annars notaður sérstakur búnaður sem nemur geislavirkni.
